fbpx
Laugardagur 30.nóvember 2024
Eyjan

Grein Hannesar á skjön við skýrslu Rannsóknarnefndar – „Því var bjargað sem bjargað varð“

Trausti Salvar Kristjánsson
Miðvikudaginn 17. janúar 2018 18:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hannes og Davíð á góðri stund

Í tilefni 70 ára afmælis Davíðs Oddssonar ritar Hannes Hólmsteinn Gissurason eina og hálfa opnu um aðkomu Davíðs að bankahruninu í Morgunblaðinu í dag. Í Stundinni kemur fram að Hannes sé ósammála niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis og lýsi Davíð sem bjargvætti Íslands í hruninu, en það sé söguskýring sem Hannes kenni í skyldunámskeiði í Háskóla Íslands.

 

 

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar voru þáverandi seðlabankastjórarnir þrír sekir um vanrækslu í tveimur málum, en Hannes segir þær ásakanir hæpnar í grein sinni. Þær hafi allar verið á svipaða leið, að gera hefði átt fleiri skýrslur, panta fleiri sérfræðiálit og semja fleiri minnisblöð. En á ögurstundu hefði þurft að taka snöggar ákvarðanir.

„Eftir að fjöldi íslenskra lögfræðinga og hagfræðinga hafði rannsakað Seðlabankann hátt og lágt í eitt og hálft ár með rúm fjárráð og ótakmarkaðan aðgang að upplýsingum fundu þeir þær tvær hugsanlegu vanrækslusyndir, að vantað hefði skjalavinnu að baki tveimur ákvörðunum sem þó hefðu sjálfar verið eðlilegar. Hvorug hin hugsanlega vanrækslusynd breytti þó neinu um bankahrunið. Hér hafði fjallið tekið jóðsótt og fæðst lítil mús,“

skrifar Hannes í Morgunblaðinu í dag.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir:

„Það er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að meta verði framangreint athafnaleysi Davíðs Oddssonar, Eiríks Guðnasonar og Ingimundar Friðrikssonar svo að þeir hafi þar látið hjá líða að bregðast við yfirvofandi hættu á viðeigandi hátt og grípa til viðhlítandi ráðstafana og með því sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008.“

 

„En gler brotnar ekki af því að það er brothætt, heldur því að eitthvað gerist,“ segir Hannes og meginskýring rannsóknarnefndarinnar hafi því ekki verið endilega röng, heldur ófullkomin, þar sem hún taldi upp atriði sem gerði bankakerfið viðkvæmt, en horft hafi verið framhjá þeim atriðum sem felldu það.
Hannes segir að meginorsökin fyrir því að bankarnir féllu, hafi verið að þeir hlutu ekki lausafjárfyrirgreiðslu, hvorki frá Evrópu né Bandaríkjunum, líkt og aðrir bankar hefðu fengið. Einnig hafi hryðjuverkalögin í boði breska Verkamannaflokksins ollið falli Kaupþings. Hannes segir að vissulega hafi ástandið hér verið slæmt og „bankarnir vaxið of hratt, stjórnendur þeirra og eigendur farið langt fram úr sjálfum sér svo að hér myndaðist kerfi sem var viðkvæmt eða ´brothætt.´“

 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem greinar um Davíð rata í Morgunblaðið frá Hannesi og er flestum enn í fersku minni tveggja opnu bálkur sem Hannes skrifaði í tilefni af forsetaframboði hins „upplitsdjarfa alþýðupilts“ Davíðs, árið 2016.

En réttmæti framgöngu Davíðs í bankahruninu og aðdraganda þess, er metið nú sem endranær eftir því í hvaða hóp, eða flokk, lesendur greinarinnar skipa sér. Hannes skrifar jafnan fallega um vin sinn Davíð og er greinilega annt um arfleifð hans. Má segja að hann reyni að bjarga því sem hann bjargað fær.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Inga vísar hugmyndum um stjórnarsamstarf við Bjarna og Sigmund Davíð á bug

Inga vísar hugmyndum um stjórnarsamstarf við Bjarna og Sigmund Davíð á bug
Eyjan
Í gær

Björn Leví skrifar: Vókið mikla

Björn Leví skrifar: Vókið mikla