Reykjavíkurborg fær lægstu einkunn í nýrri þjónustukönnun Gallup, þegar þjónusta borgarinnar við leik- og grunnskóla, eldri borgara og fatlaða er borin saman við önnur sveitafélög. Þetta kemur fram á Kjarnanum.
Mælist Reykjavíkurborg einnig neðst í heildaránægju íbúa af sveitafélagi sínu. Hún mælist þó ekki neðst í öllum flokkum, þó litlu muni. Garðabær mælist efstur í könnuninni, þegar spurt er um ánægju íbúa með þjónustu leikskóla og grunnskóla.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að könnunin gefi ekki rétta mynd af ástandinu:
„Ég myndi ekki segja að könnunin væri ekki marktakandi, en hún mælir bara viðhorf fólks til þjónustunnar í stað þjónustunnar sjálfrar, sem er vissulega eitthvað sem má skoða líka og væri auðvitað skemmtilegra ef viðhorfið myndi mælast betur, en það segir ekki endilega til um gæði þjónustunnar samt. Þarna er verið að mæla annan hlut. Okkur þykir mikilvægara að spyrja þá sem eru að nota þjónustuna okkar og í þeim könnunum sem við höfum látið gera, hefur ánægjan mælst mikil,“
sagði Heiða Björg við Eyjuna.
Reykjavíkurborg hefur ekki tekið þátt í þjónustukönnuninni hjá Gallup í nokkur ár, en íbúar borgarinnar eru þó hafðir með í úrtaki hennar, til að hægt sé að veita samanburð við önnur sveitafélög. Meirihlutinn hefur áður gefið þau svör að niðurstöður könnunarinnar nýtist þeim ekki þar sem verið sé að mæla ímynd þjónustunnar, en ekki ánægju þeirra sem hana nýti.
Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir meirihlutann harðlega í grein í Morgunblaðinu í dag fyrir að vera ekki þátttakandi í þjónustukönnuninni, þar sem niðurstöður hennar hafi verið „óþægilegar.“
„Meirihlutinn ákvað að skella við skollaeyrum, gera lítið úr viðhorfum borgarbúa og svo sem ekki í fyrsta sinn. Haldnar voru ræður sem gengu út á að gera lítið úr aðferðafræðinni sem sérfræðingar Gallup nota og meðal annars var því haldið fram að íbúar borgarinnar væru bara of kröfuharðir! Borgarbúar vita að það er ósanngjarn málflutningur. Staðreyndin er sú að ef viðhorf borgarbúa er að þjónustan sé svona léleg, þá er það einfaldlega vegna þess að hún er ekki eins góð og hún getur verið.“
Þá segir Áslaug að meirihlutinn hafi farið í sínar eigin mælingar, sem gefi ranga mynd:
„Meirihlutinn ákvað hins vegar að fara bara sínar eigin leiðir. Ákveðið var að fara í sérstakar mælingar með klæðskerasniðnum aðferðum. Margt er varhugavert við þá afstöðu. Meðal annars að þeir sem njóta þjónustu eru síður til í að segja sjálfum þjónustuaðilanum frá óánægju sinni þar sem þeir eru honum háðir um þjónustuna. Í slíkum mælingum er ekki leitað sérstaklega að þeim sem ekki hafa fengið þjónustu og þannig má lækka niður í áhrifum hópsins sem ekkert fær eða er óánægður. Svo auðvitað að því sem athyglisverðast og marktækast er, eða samanburðinum við önnur sveitarfélög, er þá auðvitað sleppt. “