Í dag byrjaði utan-kjörfundaratkvæða-greiðsla í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en leiðtogakjörið sjálft er þann 27. janúar. Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, sér um framkvæmdina, en formaður hennar, Gísli Kr. Björnsson, greiddi atkvæði sitt í morgun.
Gísli birti mynd af sér við athöfnina, líkt og tíðkast. Birti hann myndina á Facebooksíðu sinni. Netverjum brá sumum við, þar sem Gísli setti atkvæðið sitt í kjörkassa merktum Garðabæ, en kosningin fer fram í Valhöll í Reykjavík.
Helgi Seljan fréttamaður RÚV gerði grín að þessu á Twitter og hallaðist að því að Gísli væri eflaust sjúklega óheppinn:
„Formaður Varðar, Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, greiðir atkvæði í leiðtogaprófkjöri flokksins í Reykjavík.
Í kjörkassa merktan Garðabæ.
Annað hvort sjúkleg seinheppni eða brilliant húmor.
Hallast að hinu fyrra.“
Eyjan var staðráðin í að komast til botns í málinu, hvort um mistök eða húmor hefði verið að ræða og heyrði hljóðið í Gísla sem gat ekki annað en hlegið að öllu saman:
Þetta er nú bara kolrangt hjá honum. Þetta er auðvitað bara geggjaður húmor ! Helgi Seljan þyrfti nú að kíkja hingað í Valhöll til að læra aðeins um húmor 🙂
sagði Gísli um uppátækið. Í kjölfarið breytti hann myndinni sjálfur á Facebook, eins og sjá má hér að neðan.