Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir umræðu um málefni Breiðholts á fundi Borgarstjórnar þann 9. janúar síðastliðinn. Flutti hann þar tillögu sína um að setja á fót lögreglustöð í Breiðholti.
Slík stöð var starfrækt í hverfinu um tuttugu ára skeið, áður en hún var lögð niður árið 2009, í tengslum við sparnaðaraðgerðir og skipulagsbreytingar. Lögreglan er með starfsstöð á Dalvegi í Kópavogi sem nú sinnir bæði Kópavogi og Breiðholti, svæði sem telur um 20.000 manns.
„Mikil ánægja var með starfsemi hverfislögreglustöðvarinnar á meðan hún var starfrækt. Þeir lögregluþjónar, sem þar störfuðu, mynduðu jákvæð tengsl í hverfinu og eignuðust vináttu margra Breiðhyltinga, ekki síst af yngri kynslóðinni,“
sagði Kjartan um tillögu sína.
Fram kom hjá Kjartani að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru margfalt fleiri afbrot í hverfinu upplýst eftir stofnun stöðvarinnar á sínum tíma, samanborið við það sem áður var.
Afgreiðsla tillögunar var frestað.