Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sendir Kvenréttindafélagi Íslands tóninn í færslu á Fésbók og spyr hvort það eigi ekki bara að kæra niðurstöður Alþingiskosninganna.
Brynjar vísar í kæru Kvenréttindafélagsins til Kærunefndar jafnréttismála sem taldi að skipun Alþingis í fjárlaganefnd bryti í bága við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í nefndinni situr aðeins ein kona, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og átta karlar. Kærunni hefur verið vísað frá.
Brynjar er ekki sáttur með kæruna:
Þótt ég megi ekki skrifa um konur á fésbókinni má ég skrifa um félög að því að þau eru hvorugkyns. En vill einhver segja Kvenréttindafélagi Íslands að Alþingi er ekki stjórnvald og þingmenn eru kosnir í nefndir þingsins. Við þær kosningar er litið til áhuga þingmanna á einstaka nefndum þegar því verður viðkomið,
segir Brynjar. Hann skilur ekkert í Kvenréttindafélaginu að kæra ekki bara niðurstöður þingkosninganna:
Ég skil ekkert í Kvenréttindafélginu að kæra ekki alþingkosningar sjálfar til Kærunefndar jafnréttismála en þar mun hafa hallað lítillega á annað kynið í niðurstöðu kosninganna. Hver skyldi taka til varna fyrir þjóðina í því máli?