Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, gagnrýnir á heimasíðu sinni orð Katrínar Jakobsdóttur um stöðu kjarasamninga og Salek-samkomulagið, sem hún viðhafði í viðtali við viðskiptablað Morgunblaðsins í gær. Þar sagði Katrín að meta þyrfti stöðuna þannig að byrja þyrfti á „ákveðnum núllpunkti“ og leggja þyrfti „nýjan grundvöll“ fyrir samtal stjórnvalda og vinnumarkaðarins.
Styrmir spyr hvort svo sé. Hann síðan leiðréttir orð forsætisráðherra, sem sagði að Salek- samkomulagið hefði verið undirritað árið 2013:
„Salek-samkomulagið var undirritað undir lok október 2015 (ekki 2013, eins og forsætisráðherra segir í samtalinu) og aðilar að því voru bæði ASÍ og Samtök atvinnulífsins. Í Morgunblaðinu á þeim tíma kom fram, að það nái til um 70% launþega í landinu. Ríkið sjálft var aðili að því samkomulagi og undirritaði það með formlegum hætti. Þá var sami fjármálaráðherra og nú. Hvað hefur breytzt frá því að þetta samkomulag var gert?“
Styrmir segir síðan að ríkið hafi ekki staðið við sinn hlut, kjararáð hafi kveðið upp úrskurð sinn um laun æðstu embættismanna aðeins hálfu ári eftir undirritun Salek-samkomulagsins. Hann kallar eftir rökum fyrir því að byrja á núllpunktinum og spyr hvort líklegt sé að það haldi aftur af einhverjum hópum í kjarasamningum, þó svo að fáir þeirra hafi ekki verið aðilar að Salek.
Að lokum segir Styrmir það rétt hjá forsætisráðherra, að kjarasamningar séu mikilvægasta verkefnið sem ríkisstjórnin standi frammi fyrir, en núllpunkturinn verðir fljótur að breytast í svæði þar sem „jarðsprengjur eru út um allt.“