„Ég er að flytja vegna þess að ég hef ekki lengur efni á því að búa á Íslandi,“ segir hinn ástsæli útvarpsmaður Guðni Már Henningsson. Guðni lét af störfum um liðna helgi eftir 24 ára farsælan feril í útvarpi.
Á undanförnum árum hefur Guðni stýrt Næturvaktinni á Rás 2 en hann stýrði einnig Popplandinu á sínum tíma.
Hann ræddi þetta í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 á föstudag og ástæðurnar fyrir því að hann ætlar að segja skilið við Ísland.
„Það er einföld skýring. Það vita það allir að leigumarkaður hér, hann er bara gaggalagú. Og íbúð sem kostaði fjórar milljónir fyrir tíu árum hún er seld á sextíu milljónir í dag. Launin hafa lítið sem ekkert hækkað þannig að ég hef ekki efni á því að búa á Íslandi lengur.“
Þá segir Guðni að aldurinn sé vissulega farinn að segja til sín. Áður hafi hann getað unnið alla daga vikunnar og tekið næturvaktir að auki. Það taki á að sinna Næturvaktinni um helgar sem voru nánast orðnar undirlagðar vinnu.
Guðni Már ætlar að flytja til Tenerife á Spáni þar sem hann hefur tekið íbúð á leigu. Um er að ræða fjögurra herbergja, rúmgóða íbúð sem leigist með húsgögnum. „Fyrir þetta borga ég sjötíu þúsund krónur á mánuði,“ segir hann en gera má ráð fyrir því að sambærileg íbúð í höfuðborginni myndi leigjast á um 250-280 þúsund krónur eða þar um bil.