Núverandi meirihluti í borgarstjórn er fallinn samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar um fylgi stjórnmálaflokkanna í borginni. Samkvæmt niðurstöðunum nýtur Sjálfstæðisflokkurinn mest fylgis en fast á hæla honum kemur Samfylkingin. Píratar og Vinstri græn koma síðan þar á eftir.
Könnun var gerð á vegum Fréttablaðsins og vefmiðilsins frettabladid.is og eru niðurstöður hennar birtar í dag. Samkvæmt því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag þá mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 28 prósenta fylgi, Samfylkingin með 27 prósent, Píratar og Vinstri græn með 11 prósenta fylgi hvor flokkur. Viðreisn fengi 8 prósenta fylgi samkvæmt könnuninni og Miðflokkurinn og Flokkur fólksins mælast með rúmlega 4 prósenta fylgi. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 4 prósent.
Borgarfulltrúar verða 23 á næsta kjörtímabili en eru 15 núna. Miðað við niðurstöður könnunarinnar þá fá Sjálfstæðisflokkur og Samfylking 7 borgarfulltrúa hvor flokkur. Píratar, Vinstri græn og Viðreisn fá 2 borgarfulltrúa hver flokkur. Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins fá 1 borgarfulltrúa hver flokkur.
Núverandi meirihluti samanstendur af Samfylkingunni, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum. Björt framtíð býður ekki fram til borgarstjórnar að þessu sinni.
1.316 manns voru í úrtaki könnunarinnar og var svarhlutfallið um 60 prósent.