Breski grínistinn James Corden birti á mánudag beinskeytt svar við innflytjendastefnu Trump, sem meinar innflytjendum frá sjö múslimaríkjum aðgang að Bandaríkjunum næstu 90 daga, jafnvel þótt þeir hafi tvöfalt ríkisfang. Þetta kraftmikla myndbandi sýnir Corden yfirgefa landið alveg átakalaust – en skilaboðin gætu ekki verið skýrari.
„Í dag flaug James frá Los Angeles. Því hafa allir þættir okkar þessa viku verið teknir upp fyrir fram. Ferðafrelsi ætti að vera auðvelt fyrir alla löglega innflytjendur. Ekki bara þá sem eru hvítir og kristnir,“ segir í lok myndbandsins.
Corden hefur verið tíður gestur á skjáum Bandaríkjamanna frá árinu 2014 og notið mikilla vinsælda sem stjórnandi spjallþáttanna The Late Late Show sem teknir eru upp í Los Angeles. Þættirnir eru ef til vill þekktastir fyrir liðinn „Carpool Karaoke“ þar sem Corden býður frægu fólki á rúntinn með sér.
Corden hefur áður lýst yfir stuðningi við flóttamenn, innflytjendur og mótmælendur. Hann er nú staddur í Bretlandi og á mánudag tísti hann frá fjölmennum mótmælum við hertri innflytjendastefnu í Liverpool. Þar segist hann stoltur af íbúum fyrir framtakið.
Proud of the people of Liverpool for this. X pic.twitter.com/RRJeRNZ8iC
— James Corden (@JKCorden) January 31, 2017