Leikkonan Emma Stone hefur verið að gera það gott í Hollywood á undanförnum árum en hún er meðal annars tilnefnd til ýmissa verðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni La La Land. Hún tjáði sig nýlega í viðtali við W Magazine en þar vakti helst athygli að hún sagðist óska þess að hún gæti endurheimt sitt rétta nafn.
Hún var skírð Emily Jean Stone en var látin breyta nafni sínu þegar hún gekk í samtök kvikmyndaleikara í Bandaríkjunum vegna þess að kona að nafni Emily Stone var þegar skráð í félagið.
„Að biðja 16 ára krakka að velja nýtt nafn er mjög áhugavert ferli því ég sagði,“ segir Emma. Hún leyfði hugmyndafluginu að hlaupa með sig og valdi sér nafnið Riley. „Þannig að ég hét Riley Stone í um það bil sex mánuði og fór með gestahlutverk í Malcom in the Middle.“
„Einn daginn var kallað á mig ‚Riley, Riley,‘ og ég hafði ekki hugmynd um hvern þeir voru að tala við,“ segir Emma sem áttaði sig á því að nýja nafnið færi henni ekki vel. „Ég er ekki Riley, ég get ekki verið Riley,“ hugsaði hún. Það fór því þannig að hún valdi sér nafnið Emma enda var það nær hennar rétta nafni.