„Ekki þröngva úreltum kynjahlutverkum og fáránlegum reglum upp á börn sem eru að læra að verða sjálfstæðir einstaklingar,“ segir Eyrún Eva Gunnarsdóttir. Sonur hennar er klæðist stundum bleiku og segir hún að annað fólk hneykslist og tjái sig þá um klæðaburð hans. Hún skrifaði í mæðrahóp á Facebook:
„Hann á bleikan pollagalla sem hann valdi sjálfur og stígvél í stíl. Mér gæti ekki verið meira sama. Mér er hins vegar ekki sama þegar ég lendi svo í því að fólk, aðallega miðaldra og svo mæður, spyrji hvort þetta sé ekki stelpulitur og hneykslast á því að ég leyfi þetta.“
Bendir hún þar á að upprunalega hafi bleikur verið strákalitur og blár stelpulitur. Eyrún sagði í samtali við Bleikt að sonur sinn sé hrifinn af öllum litum. „Hann fór í öllu grænu í leikskólann í dag. Gæti verið einhver annar lítur á morgun eða bara allt Spiderman eða eitthvað álíka.“ Vonar hún að fólk hætti að spá í svona löguðu.