Febrúar tölublaðið af bandaríska Glamour er frekar einstakt en það var að öllu búið til af konum. Konur sáu um greinaskrif, ljósmyndun, hárgreiðslu, förðun og allt annað í tengslum við blaðið og enginn karlmaður var fenginn til þess að vinna að því. Á forsíðunni eru Girls leikkonurnar Lena Dunham, Allison Williams, Zosia Mamet og Jemima Kirke. Annað sem vekur athygli við tímaritið er að ekkert var átt við myndirnar sem birtust í blaðinu, þær eru birtar án viðkomu í Photoshop.
Væntanlega eru seldar auglýsingar vel photoshoppaðar eins og venjulega en allar myndir af viðmælendum eru óbreyttar. Þetta er ótrúlega flott skref fyrir konur um allan heim. Að tímaritið hafi verið algjörlega gert af konum er líka æðislegt. Það eina sem vantaði upp á til að gera þetta fullkomið er að forsíðustúlkurnar hefðu verið í flíkum eftir kvenkyns hönnuð en svo var því miður ekki, þær voru í fötum frá Marc Jacobs.
Lena Dunham fagnaði þessari forsíðu og sagði frá því á Instagram í einlægum pistli. Þar sagði hún að á unglingsárum hafi henni verið sagt að hún liti skringilega út. Hún hafi reynt að virka sjálfsörugg en hafi verið miður sín yfir athugasemdunum sem hún fékk að heyra. Skrifar hún meðal annars:
„Ég hataði ekki útlit mitt – ég hataði menninguna sem var að segja mér að hata það. Þegar ég hóf ferilinn minn voru sumir sem hrósuðu útliti mínu en alltaf í gegnum linsuna „Er hún ekki hugrökk? Er það ekki djarft að sína ÞENNAN líkama í sjónvarpi?“ Svo voru það öll nettröllin sem létu menntaskólastríðnina líta út eins og djók með sínum ofbeldisfullum hótunum, sjúkum móðgunum sem létu mig finna svo mikið til með stelpunum sem gætu verið að lesa.“
Það var því stór stund fyrir Lenu að fá að sýna líkama sinn, EINS OG HANN ER, á forsíðu á svona stóru kvennatímariti. „Líkami minn er á forsíðu tímarit sem milljónir kvenna munu lesa, án photoshop, ófullkomna lærið mitt alveg sjáanlegt. Hvort sem þú ert sammála mér í skoðunum, hvort þér líkar við þáttinn minn eða tengir við það sem ég geri, það skiptir ekki máli – minn líkami er ekki leyfilegt skotmark. Enginn líkami er það…“
Lena segir að konur eigi ekki að hlusta á neikvæðu raddirnar árið 2017, hvort sem þær komi frá vinum, maka eða einhverjum sem felur sig bakvið tölvuskjáinn og skrifar á blogg eða í athugasemdir.
„Takk konurnar í Hollywood (og á Instagram) sem leidduð þessa leið, með innblæstri og með því að gera það „normal“ að sýna líkamann Í ÖLLUM GERÐUM, og takk Glamour fyrir að leyfa appelsínuhúðinni minni að njóta sín í blaðastöndum út um allt í dag.“
Því miður er það þannig að hvernig konur eru sýndar í fjölmiðlum hefur áhrif á það hvernig margar konur sjá sjálfa sig og eigin líkama. Myndir eru stór hluti af því svo við fögnum því að tímarit sleppi Photoshop og sýni konur eins og þær eru, þó að það verði aðeins í þetta eina skipti þá er þetta skref í rétta átt.
Um ákvörðun sína með að hafa aðeins konur að vinna að blaðinu sagði Cindi Leive við USA Today að þrátt fyrir að blaðamennirnir sem skrifuðu í Glamour væru nánast allir kvenkyns þá væru fleiri karlar að vinna að ljósmyndunum til dæmis. „Kynjajafnrétti er í huga okkar allra. Það er mjög mikilvægt fyrir mig að Glamour sé ekki bara að tala um valdeflingu kvenna heldur geri líka eitthvað í málunum. Við ákváðum að styðja konur með marktækustum hætti, með því að ráða þær.“