Grænkál er auðvelt að rækta á Íslandi og notkun þess fer vaxandi. Það er náskylt öðrum káltegundum, en einnig mustarði, piparrót og karsa.
Grænkál er auðvelt að rækta í íslensku veðurfari en geymslutíminn er frekar stuttur þegar búið er að uppskera, eða um vika í kæli. Það er hitaeiningasnautt og inniheldur ríkulegt magn af A-, B- og C-vítamíni. Auk þess er það góð uppspretta kalíums, fosfórs og járns, líkt og annað dökkgrænt grænmeti.
Grænkál má elda á ýmsa vegu, steikja, sjóða, gufusjóða eða nota það hrátt í salöt. Sé það notað hrátt er best að hnoða það með olíu og sítrónusafa til þess að brjóta niður trefjar og gera bragðið mildara.
Þurrkað og kryddað grænkál er fyrirtaks snakk sem getur komið í staðinn fyrir ýmsa óholla kosti, eins og kartöfluflögur eða bland í poka. Aðferðin er sáraeinföld og fljótleg og útkoman sérlega ljúffeng.
Efni:
1 poki grænkál
2 msk. ólífuolía
saltflögur
chili-flögur
Aðferð:
Rífið grænkálið af stilkunum og í hæfilega bita ofan í skál. Bætið olíunni við og blandið með höndunum. Dreifið á bökunarplötu sem er þakin með smjörpappír. Stráið yfir saltflögum og chili-flögum. Þurrkið við 200°C í ofni í 5–7 mínútur. Njótið!