Prjónahönnuðurinn Stephen West, sem dvelur á landinu um þessar mundir, verður að teljast með meira skapandi Íslandsvinum sem fyrirfinnast. Hann hannar prjónaflíkur og ryður frá sér uppskriftum sem prjónarar um allan heim elska, en hann er líka dansari, og eitt sinn var hann meðlimur í keppnisliði skólans síns í sippi (já með sippuband).
Nýjasta myndbandið hans er við lagið Wannasheep – en það er ábreiða af laginu Wannabe sem Spice girls gerðu frægt árið 1996 og skaut þeim upp á stjörnuhimininn.
Íslendingar ættu að kannast vel við umhverfið í myndbandinu – en með Stephen í því sjást dansararnir Kyli Kleven og Stevie May, einhyrningurinn hans Páls Óskars úr síðustu Pride göngu, já og ekki má gleyma slatta af reykvískum köttum!