Þjálfarinn, bloggarinn og hönnuðurinn Lína Birgitta er ótrúlega hvetjandi á Snapchat og er dugleg að ræða í einlægni um hin ýmsu málefni tengdum líkamlegri og andlegri heilsu. Lína Birgitta hefur staðið við öll sín markmið í Meistaramánuði nema eitt.
Af hverju tekur þú þátt í Meistaramánuði?
„Mér finnst gaman að setja mér markmið og það er extra gaman að taka þátt því það eru svo margir peppaðir og það er auðvelt að fá hvatningu.“
Hvaða markmið settir þú þér?
„Markmiðin mín eru að mæta í ræktina fjórum sinnum í viku, elda heima þrisvar til fjórum sinnum í viku (ég eldaði aldrei heima), fara út í göngutúr einu sinni í viku og eyða meiri tíma með fjölskyldunni en það á til að gleymast þegar það er mikið að gera hjá mér.“
Hvernig finnur þú hvatningu?
„Ég sæki hvatninguna mína aðallega í „peptalki“ við sjálfa mig, ég hef lært það að tala uppbyggilega til mín og finnst það rosalega hvetjandi. Svo koma auðvitað dagar þar sem að maður er ekkert peppaður en þá er best að koma sér bara af stað og ekki hugsa.“
Hvernig gengur?
„Ótrúlegt en satt þá gengur mér mjög vel að elda heima og mér er eiginlega farið að finnast það skemmtilegt! Ég stend mig vel að mæta á æfingar og hitta fjölskylduna en göngutúrarnir hafa ekki staðist eins og er en mánuðurinn er ekki búinn.“
Hvað hefur verið erfiðast?
„Ætli það sé ekki að koma sér í það að elda, mér hefur alltaf fundist það frekar leiðinlegt en það er sem betur fer búið að snúast við, mér til mikillar ánægju.“
Hvaða ráð viltu gefa öðrum?
„Ætli það sé ekki að setja sér markmið sem maður getur staðið við. Það er mjög gott að setja sér „minni“ markmið og ná þeim jafn óðum. Því þegar maður nær markmiðunum sínum þá bætist sjálfstraustið og þegar sjálfstraustið er gott þá er auðveldara að ná markmiðunum sínum.“