„Þetta var mjög erfitt,“ sagði Angelina Jolie þegar hún tjáði sig í fyrsta skipti opinberlega um skilnaðinn við Brad Pitt. Angelina var spurð um sambandsslitin í viðtali við BBC í tilefni af frumsýningu á kvikmyndinni First They Killed My Father. Myndin sem er framleidd af Netflix er byggð á samnefndri bók eftir Loung Ung. First They Killed My Father fjallar um þjóðarmorðið í Kambódíu en Angelina tók börnin sín sex með sér til Kambódíu á frumsýninguna.
„Ég vil ekki tjá mig mjög mikið um það, annað en að segja að þetta var mjög erfiður tími og við erum fjölskylda, og við verðum alltaf fjölskylda,“ sagði Angelina í viðtalinu. Angelina sótti um skilnaðinn í september og hefur hún fullt forræði yfir börnum þeirra sex, Maddox, Pax, Zahara, Shiloh, Knox og Vivienne. Sagði Angelina í viðtalinu að þetta hafi verið erfitt fyrir þau öll en börnin eru á aldrinum 8 til 15 ára.
Augljóslega átti leikkonan mjög erfitt með að ræða þetta persónulega mál og virkaði mjög döpur. Angelina segist þar vera að reyna að finna leið í gegnum þetta til þess að þau komi frá þessu bæði sterkari og nánari.
„Minn fókus er á börnin mín, börnin okkar.“