Börnin mín komu heim í gær úr Glódísarhelgi.
Eins og þeir sem þekkja mig vita, þá er ég ekki fráskilin samkynhneigð kona en börnin fara í mömmuhelgar hjá annarri konu, mömmu.
En fráskilin er ég samt.
Ekki nema von að fólk spyrji, hver er Glódís?
Glódís er konan sem kom inn í líf barnanna minna fyrir fjórum árum síðan þegar hún kynntist pabba þeirra.
Trúið mér… Það rigndi ekki glimmeri og regnbogum í upphafi.
Síður en svo, skilnaðir eru alltaf flóknir þótt allir aðilar leggi sig fram.
Tíminn leið og glimmerið settist svo allir fóru að sjá skýrt á ný.
Ég fór að sjá og heyra hvernig börnunum mínum leið hjá og með Glódísi.
Hún tók þátt og gerði allt sem mömmur gera, mætti á sýningar og skemmtanir, klæddi þau og baðaði, gladdist með þeim og huggaði, ferðaðist með þeim og fræddi um lífið.
Það bað hana enginn, hún valdi það sjálf.
Hún var orðin “stjúp”mamma.
Eins og stundum gerist skilja leiðir para og þarna var engin undantekning.
Slíkar kveðjustundir eru ekki auðveldar fyrir börn sem hafa fengið manneskju eins og hana í líf sitt.
En þó að Glódís hafi kvatt pabba þeirra þá kvaddi hún ekki börnin mín.
Þarna hafði líka bæst við einn lítill gullmoli sem átti systkini sem hann átti rétt á að þekkja og þau hann. Pabbinn flaug á vit ævintýranna svo tengsl barnanna voru í okkar höndum.
Þarna kom sér mjög vel að allt glimmer hafði sest vel og kirfilega ásamt því að við mömmurnar höfðum aðeins eitt að markmiði, hag barnanna.
Alltaf alla daga allan ársins hring er það þeirra hagur að umgangast og þekkja hvort annað.
Alltaf alla daga allan ársins hring er það þeirra hagur að mömmurnar séu sammála og geti rætt saman þegar þess þarf um þeirra hag.
Því þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það þau sem skipta öllu máli og það skiptir okkur mestu máli að þeim líði vel og tilheyri, líka þegar fjölskyldan er flókin.
Svo… eina helgi í mánuði fara börnin mín „í Glódísarhelgi“ og svo kemur litla gullið hennar líka eina helgi til okkar og leikur við systkini sín.
Fyrir 4 árum hefði mér ekki dottið í hug að svona væri staðan í dag.
Að ég gæti samþykkt aðra konu á þennan hátt inn í líf barnanna minna og verið sátt, en ég er meira en sátt, ég er þakklát.
Ég er þakklát fyrir hennar val og hjartalag.
Börnin mín völdu hana og hún þau.
Svo eignaðist ég þarna vinkonu sem þykir ofboðslega vænt um það sem er mér það allra dýrmætasta.
Leyfum glimmerinu að setjast, sjáum skýrt og hugum vel að því sem mestu máli skiptir.