Leiðin að styrkari líkama og heilbrigðara lífi felur í sér að þú verður að hyggja að matarvenjum þínum, draga úr neyslu hitaeininga og hreyfa þig meira. Þetta eru tæplega ný tíðindi fyrir þig ef þú ert of þung/ur. Lífið er fullt af gildrum og ef þú ætlar að ná markmiði þínu verðurðu að breyta daglegum venjum.
Til þess að breyta þarftu að vita hverju þú vilt breyta. Þú þarft að gera þér grein fyrir því hvernig þitt mynstur er. Hvar getur þú breytt? Hverju er auðveldast að breyta? Settu þér raunhæf markmið, það er ekki vænlegt til árangurs að kúvenda öllu. Góðir hlutir gerast hægt!
Hreyfing er eitt af því allra mikilvægasta sem við gerum á hverjum einasta degi. Það er nauðsynlegt fyrir alla að hreyfa sig. Á hverjum degi fáum við fullt af tækifærum til að hreyfa okkur.
Hreyfing þarf ekki alltaf að vera skipulögð, eða í einhverju sérstöku samhengi eða við sérstakar aðstæður.
Það er mikið talað um að fara í átak í þessu eða hinu. Námskeið í líkamsrækt getur auðvitað verið mjög gott, en það sem þarf til lengri tíma er hugarfarsbreyting. Við fáum ótal tækifæri til að hreyfa okkur, án þess að utan um það þurfi að vera einhverjar sérstakar umbúðir.
Settu þér ákveðið markmið sem mögulegt er fyrir þig að ná. Hreyfing getur verið fólgin í heimilisstörfum, garðvinnu, hjólreiðum, sundi, leikfimi, þrekþjálfun, golfi eða hópíþróttum.
Mannslíkamanum má líkja við vél. Það er nauðsynlegt að smyrja hana og hreyfa hana, annars ryðgar hún og stirðnar. Nú fer vorið að koma og tíminn framundan góður til útiveru og göngutúra. Hreyfum okkur því á hverjum degi.