Harmurinn sem sló þjóðina í kringum andlát Birnu Brjánsdóttur risti djúpt, og samkenndin var mikil, hvort sem fólk þekkti til Birnu í lifanda lífi eða ekki. Mál Birnu kom okkur öllum við. Fréttamiðlar voru undirlagðir máli hennar allan seinni hluta janúarmánuðar og sömuleiðis tjáðu margir sig um það á samfélagsmiðlum.
Við vorum, og erum, öll slegin, sorgmædd og í áfalli yfir örlögum Birnu.
Börnin okkar eru þar engin undantekning, því þó að við viljum með ýmsum ráðum vernda þau frá harmi heimsins, er það hreinlega ekki hægt. Fjölmiðlabann á heimilinu mundi ekki einu sinni duga, því málin eru rædd í frímínútum í skólanum, á leikvellinum og annars staðar þar sem börnin okkar koma saman. Þau eru með miklu stærri eyru en við höldum, og oft á tíðum miklu duglegri að fylgjast með þjóðmálaumræðunni en þau láta uppi.
„Mamma, það var mjög vondur maður sem drepaði eina stelpu,“ sagði fimm ára sonur vinkonu minnar við hana einn morguninn á leið í leikskólann.
„Pabbi, getum við flutt úr miðbænum?“ sagði 12 ára dóttir vinar míns þegar leitað var að Birnu Brjánsdóttur og rætt um ferð hennar um miðbæinn.
„Hvað kom fyrir Birnu, af hverju er hún alltaf í fréttunum?“ spurði 8 ára dóttir annarrar vinkonu.
Ég ákvað að fara á stúfana og leitaði svara hjá nokkrum foreldrum um það hvernig þau ræddu mál Birnu við börnin sín.
„Þegar Birna var ennþá ófundin átti ég erfitt með svefn í tvær nætur og grét. Dóttir mín sem er 8 ára mín sá það og spurði hvað væri að. Ég sagði henni eins og var, að stelpa væri týnd og mér þætti það svo leiðinlegt. Þegar Birna fannst svo sagði ég henni að vondir menn hefðu tekið hana og drepið. Mér finnst ekki annað hægt en að segja börnum sannleikann. Strákarnir mínir eru 11 og 15 ára og tóku auðvitað eftir því að ég sussaði sérstaklega á þá þegar fréttir komu af málinu. Mér fannst þetta hafa áhrif á öll börnin – en aðallega í gegnum þau miklu áhrif sem málið hafði á mig. Þau lifðu sig inn í þetta, en voru samt fljót að beina huganum að einhverju öðru.“
„Stelpurnar mínar fjórar eru 7, 10, 14 og 17 ára, og allar spurðu þær um ýmislegt sem tengdist hvarfi og andláti Birnu Brjánsdóttur. Ég svaraði bara hreinskilnislega og var ekki að prinsessuvæða neitt, en fór ekki út í neinar hryllingslýsingar samt. Fyrir þeim eldri brýndi ég að vera aldrei einar úti seint á kvöldin, en það hef ég svo sem sagt þeim lengi. Sú yngsta spyr mig dálítið ennþá um fréttirnar – hvort hitt og þetta í þeim sé vegna Birnu. Birna gekk í sama grunnskóla og þær og þess vegna hafa krakkarnir rætt um hana í skólanum. Mér finnst stelpurnar ekki hafa orðið hræddar, en auðvitað hef ég útskýrt fyrir þeim að það er til alls konar fólk – og sumir gera slæma hluti.“
„Það er venjulega stríðsástand hjá mér á kvöldin við strákana (7 og 12 ára) þegar ég segi þeim að hætta í PS4 og setja fréttir á í sjónvarpinu. Þeir kvarta og kveina yfir fréttaáhuganum og horfa sjálfir aldrei á fréttir. Nema þessa daga þegar Birna var í fréttum. Þá var sjálfsagt mál að slökkva á PlayStation og þeir sátu áfram áhugasamir og horfðu með á fréttir. Þeir voru fullir hluttekningar og tóku þetta mjög nærri sér. Það var eins og Birna væri skólasystir þeirra eða nákominn ættingi.“
„Stelpan mín er 14 ára og hafði nýlega fylgst með málinu þegar stúlka á hennar aldri varð fyrir árás á Klambratúni. Svo þegar myndböndin af Birnu fóru að birtast í fjölmiðlum varð hún mjög hrædd – þar sást Birna ganga götur sem dóttir mín gengur daglega. Ég vil ekki að hún fari að hræðast miðbæinn og hef rætt við hana um að þó að mál Birnu sé óhuggulegt sé mjög óalgengt að svona gerist á Íslandi. Ég vona að óttinn muni ekki takmarka líf hennar. Erfiðastar finnst mér heimspekilegu spurningarnar um illsku og hvers vegna sumir geri vonda hluti.“
„Það var ljóst að krakkarnir í skólanum fylgdust með þessu máli. Strákarnir mínir eru 9 og 10 ára og ég sagði þeim bara eins og er.“
„Öll fylgdust með, og þetta var rætt á heimilinu. Þau yngstu, 7 og 10 ára, spurðu mikið og fengu nokkuð hreinskilin svör, en um leið var lögð áhersla á að svona gerist mjög sjaldan á Íslandi. Þau hafa sýnt mun meiri áhuga á að horfa á fréttir í tenglsum við þetta mál. Það er mikilvægt að hræða börnin ekki, en leyfa þeim samt að fylgjast með.“
„Sonur minn 9 ára hefur tekið þetta meira inn á sig en dóttir mín 12 ára. Hún var aðallega leið fyrir hönd Birnu og fjölskyldu hennar en sonur minn hefur meira velt þessu fyrir sér með gerendur í huga. Hann hefur sagst upplifa ótta við morðingja. Hann spurði meira út í málið yfir höfuð og var líka mjög leiður fyrir hönd Birnu og velti fyrir sér hvernig fjölskyldu hennar liði. Við höfum sagt börnunum upp og ofan af málinu, miðað við hvernig það hefur verið rætt í fréttum. Til dæmis lagði ég gríðarlega áherslu á að það væri ekki hægt að dæma heila þjóð út frá tveimur Grænlendingum. Ég tók eftir því að ef að við foreldrarnir vorum í uppnámi þá hafði það áhrif á þau. Sérstaklega þegar lögreglufundurinn var þegar Birna var fundin og við límd við tækin – þá komst sér í lagi sonur minn í mikið uppnám. En þau eru upplýst um gang mála mínus smáatriði.
Við höfum rætt mikilvægi þess að hugsa til Birnu og fjölskyldu hennar, biðja fyrir þeim og senda þeim hlýja strauma. Ég vil ekki að óttinn sé eitthvað sem stendur upp úr.“