Stephen West, prjónarokkstjarna, er án efa einn litríkasti tengdasonur Íslands. Hann er mættur aftur til landsins, eins og ferðalangar í Leifsstöð tóku eftir í morgun.
Stephen mun dvelja meira og minna á Íslandi næstu tvo mánuðina – en hann elskar land og þjóð og fær hreinlega ekki nóg af því að drekka í sig innblástur, hvort sem er á byggðu bóli eða úti í náttúrunni.
Á meðan herra West beið eftir töskunni sinni í komusal Leifsstöðvar ákvað hann að fara í splitt og fékk annan ferðalang til að smella af því mynd.
Bleikt náði örstuttu tali af prjónarokkstjörnunni eftir komuna í morgun.
„Ég er nú þegar brjálæðislega innblásinn og glaður yfir því að vera lentur. Ég er tilbúinn að þramma um göturnar í prjónaflíkunum mínum og fara í splitt þar sem mig langar. Það er sko nýr prjónakisi mættur á svæðið og hann ætlar að líða um göturnar prjónandi og dansandi. Ég elska að vera hérna!“
Það er öruggt að koma Stephens mun setja svip sinn á grámyglulegar götur Reykjavíkurborgar – enda er stíll hans litríkari en flestra sem um þær ganga.
Bleikt býður Stephen hjartanlega velkominn til landsins, en á næstu dögum munum við tilkynna hvernig dagskrá hans verður háttað hér á landi með tilliti til námskeiða og viðburða.
http://bleikt.pressan.is/lesa/prjonarokkstjarnan-stephen-west-vaeri-til-i-ad-flytja-til-islands/