Í ljósi almennrar styrkingar íslensku krónunnar og stöðugleika hefur Lindex á Íslandi ákveðið að lækka verð um allt að 24% eða 11% að meðaltali. Íslenska krónan hefur styrkst gagnvart flestum gjaldmiðlum síðustu misseri ásamt því að nokkur stöðugleiki er kominn á með tilkomu fljótandi gengisviðskipta með íslensku krónuna. Þessi þróun hefur ekki síst verið gagnvart Bandaríkjadal, innkaupagjaldmiðli Lindex, sem gefur möguleika til þessara breytinga nú.
“Undanfarnar vikur hefur verið skoðað sérstaklega áhrif þess að krónan var sett á flot í fyrsta sinn í tæp tíu ár. Í ljósi þessara breytinga er sérlega skemmtilegt að geta skilað þessari búbót til okkar viðskiptavina. Við munum nú, sem endranær, kappkosta að bjóða okkar vörur á sem hagkvæmasta verði og leitum stöðugt leiða til að ná því fram.” – segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi.
Á starfstíma sínum eða frá árinu 2011 hefur Lindex á Íslandi ekki hækkað almennt verð jafnvel þótt íslenska krónan hafi veikst á tímabilinu. Þessi verðlækkun er sú þriðja í röðinni á s.l. 18 mánuðum. Sú fyrsta var um áramótin þarsíðustu þegar niðurfellingu tolla var skilað að fullu og önnur verðlækkun í röðinni var í október síðastliðnum. Sú þriðja tekur gildi þegar í stað.