Fyrri sýning Reykjavík Fashion Festival var haldin í gærkvöldi í Silfurbergi Hörpu. Þar kom saman fjöldinn allur af fólki og spenningurinn leyndi sér ekki. Gleðin og áhuginn skein úr augum gestanna og mátti sjá fólk merkt hátíðinni á hlaupum við að leggja lokahönd á undirbúninginn.
Það var greinilegt að þarna var saman komið áhugafólk um tísku þar sem allir voru glæsilegir og einstalega vel til hafðir.
Vín, kaffi og hlátur var það sem einkenndi hópinn sem beið með eftirvæntingu eftir því að sýningin hæfist.
Margir af helstu áhrifavöldunum í tískuheiminum voru að sjálfsögðu mættir og má þar nefna Þórunni Ívars, Fanney Ingvars, Línu Birgittu, Kristbjörgu Jónasdóttur og stúlkurnar frá Trendnet.
Á milli sýninga fóru allir fram og fylltu á glasið sitt og blönduðu geði við aðra gesti. Það mátti augljóslega sjá að fólki líkaði sýningin vel enda var hún magnþrungin í einu orði sagt.