Í dag fæðast flest öll börn á Íslandi sem prinsar og prinsessur. Ekki það að þau séu í raun af konungsættum. Nei, þau eru börn og barnabörn mín og þín. Börn fólks sem hefur unnið hörðum höndum að því að hafa í sig og á, mann fram af manni.
Þessi tíska að tala um börn sem konungborið fólk er fáránleg svo ekki sé meira sagt. Ég spyr mig hver sé tilgangurinn með því? Er það spurningin um valdið á heimilinu? Á litli „prinsinn“ eða „prinsessan“ að ráða öllu? Eða er það þjónustulund hinna fullorðnu sem ræður þessu? Á að þjóna þessu barni og hlýða hverri skipun þess? Eiga þessir „prinsar og prinsessur“ að sjá fyrir sér í framtíðinni?
Hverju sem um er að kenna þá trúi ég ekki að það sé börnum til góðs að vera stöðugt umtöluð sem eitthvað sem þau eru ekki. Ég trúi heldur ekki að lýsingarorðin sem um þau eru notuð þurfi öll að vera í efsta stigi. Fallegust/fallegastur, duglegust/duglegastur, sterkust/sterkastur og svo framvegis sem hlýtur að þýða að öll hin séu ljótari, duglausari og máttlausari.
Börnin okkar eru framtíðarfólk. Þau fá margs konar hæfileika og útlit í arf frá foreldrum sínum. Það er okkar að hjálpa þeim að þroska þessa hæfileika. Það er okkar að kenna þeim að gera það besta úr því sem þeim var úthlutað. Það er okkar að gera þau að föður- og móðurbetrungum því lífið fer ekki aftur á bak. Vel undirbúið barn er barn sem spjarar sig.
Höfundur er Dýrleif Skjóldal, leikskólakennari og sundþjálfari.
Greinin birtist fyrst í Akureyri vikublað.