Þeir karlmenn sem taka harkalega á því í ræktinni eru með minni kynhvöt en karlar sem taka ekki jafn hart á því. Þetta er niðurstaða einnar fyrstu rannsóknarinnar sem gerð hefur verið á áhrifum líkamsræktar á kynlíf karla og tengslin milli hreyfingar og kynlífs.
Vísindamenn og hreyfingarsinnað fólk hefur í áratugi rökrætt hvort og hvernig líkamsrækt hafi áhrif á kynlíf og kynhvöt. Flestar rannsóknirnar hafa beint sjónum sínum að áhrifa hreyfingar á tíðahring kvenna. Niðurstöður þeirra hafa einkum verið þær að þegar ákveðnar tegundir íþróttakvenna, til að mynda maraþonhlauparar, æfa mikið í margar klukkustundir á viku hefur það áhrif á blæðingar þeirra.
Það er hins vegar ekki algengt og slíkt gengur yfirleitt yfir fljótlega eftir að dregið er úr æfingaálagi.
Oftast eru rannsóknir gerðar út frá karlmönnum og niðurstöðurnar yfirfærðar á konur. Þannig er því ekki háttað hvað þessi mál varðar og karlmenn hafa setið á hakanum.
Í rannsókn sem gefin var út í síðasta mánuði í ritrýnda tímaritinu Medicine & Science in Sports & Exercise komust vísindamenn við háskólann í Norður-Karólínu í Chapel Hill að áhugaverðum niðurstöðum.
Rannsakendurnir spurðu hreyfingarsinnaða karlmenn um kynlífið þeirra. Spurningalistinn byggði á fyrri rannsóknum á kynhegðun karla og var meðal annars spurt um það hversu oft þeir hugsuðu um kynlíf og hve oft þeir stunduðu það. Annar spurningalista var lagður fyrir þar sem spurt var ítarlega um líkamsrækt.
Um 1100 karlmenn sem stunduðu mikla líkamsrækt svöruðu spurningum rannsakenda. Þeim var svo skipt í hópa eftir magni og ákefð. Áberandi mynstur birtust. Þeir sem stunduðu létta eða miðlungs ákafa líkamsrækt voru með miðlungs eða mikla kynhvöt en þeir sem stunduðu mjög ákafar eða langar æfingar, jafnvel eftir að tillit var tekið til aldurs. Eldri karlmenn eru með minni kynhvöt að staðaldri, þó munurinn sé ekki ýkja mikill.
Vísindamennirnir taka svo djúpt í árina að segja að miklar æfingar, hvort sem þær vari í langan tíma eða séu styttri en þeim mun ákafari, minnki kynhvöt. Hópurinn sem tók þátt í rannsókninni var þó lítill og ef til vill ekki raunsannur þverskurður af samfélaginu svo það er erfitt um vik að fullyrða það að mikil hreyfing dragi úr kynhvöt. Þetta er þó klárlega eitthvað sem hollt er að velta fyrir sér.