Hér er á ferðinni uppskrift að frábæru pastasalati sem mun nú líklegast slá í gegn hjá flestum sem það bragða. Uppskriftin inniheldur góðgæti eins og kjúkling, penne pasta, stökkt beikon, parmesan, pestó, hvítlauk og rjóma ofrv. Það er borið fram kalt og hentar vel í veislur og mannfögnuði þar sem þarf að metta marga munna. Það er sérstaklega einfalt í gerð þar sem öllu er einfaldlega blandað saman áður en þess er notið.
Pastasalat með kjúklingi, beikoni og parmesan
400 g penne pasta
1 pakki beikon
2 kjúklingabringur, fulleldaðar
50 g furuhnetur, ristaðar
1 dós sýrður rjómi
1/2 rauð paprika, skorin í litla teninga
1/3 púrrulaukur (notið aðeins hvíta hlutann), skorin í sneiðar
2 hvítlauksrif, söxuð smátt
50-100 g parmesanostur, rifinn
1/4 icebergsalat, niðurskorið
2 msk grænt pestó
1/2 tsk safi úr ferskri sítrónu
1/2 dl rjómi
salt og pipar
Eldið pastað skv. leiðbeiningum á pakkningu og kælið lítillega.
Skerið beikonið í litla bita og steikið.
Rífið eldaðar kjúklingabringur niður í litla bita.
Blandið síðan sýrðum rjóma, sítrónusafa, pestó og rjóma saman og hrærið vel.
Blandið öllu saman í stóra skál og saltið og piprið ríflega.