Feud eru nýjustu þættirnir úr smiðju meistarans Ryan Murphy sem færði okkur American Horror Story og American Crime Story: People vs OJ Simpson. Þeir segja frá erfiðri samvinnu leikkvennanna Joan Crawford og Bette Davis við gerð kvikmyndarinnar What Ever Happened to Baby Jane? sem kom út árið 1962 í leikstjórn Robert Aldrich.
Crawford var orðin þreytt á því að fá engin hlutverk lengur vegna aldurs og ákvað því að taka málin í eigin hendur. Eftir að hafa skoðað ótalmörg handrit og tugi bóka fann Crawford loksins eitthvað sem talaði til hennar og það var bókin What Ever Happened to Baby Jane? Hún og Davis höfðu eldað grátt silfur saman í áraraðir en voru báðar komnar á það sem virtist vera endaststöð ferils þeirra. Hollywood var á þessum árum, eins og samfélagið allt, ekki tilbúið fyrir kvikmyndir með konum komnum af þrítugsaldri í hlutverkum þar sem þær væru ekki mæður eða ömmur.
Það er ótrúlega áhugavert að fá svona innsýn inn í þá baráttu sem tvær leikkonur, sem sannarlega voru stórstjörnur, þurftu að heyja til að fá að leika í kvikmyndum eftir að Hollywood, sem var þá og er enn að mestu stýrt af körlum, ákvað að þær voru of gamlar til að bera myndir.
Þættirnir eru skemmtilega kitsch eins og Murphy einum er lagið. Leikmynd og búningar eru framúrskarandi, hvað var fólk að hugsa með því að setja plasthlífar utan um alla sófa og stóla? Hverjum datt í hug að bjóða upp á fiskihlaup í fínum matarboðum?
Með aðalhlutverk fara engar smá kanónur, þær Jessica Lange og Susan Sarandon sem eru auðvitað í heimsklassa og negla þetta. Alfred Molina fer með hlutverk Aldrich og Stanley Tucci er frábær eins og alltaf í hlutverki hins ógeðfellda kvenhatara og perverts Jack Warner, stofnanda Warner Brothers kvikmyndarisans.
Handritið og leikstjórnin gerir það að verkum að leikararnir fá að njóta sín og ýkja persónuleikaeinkenni og aðstæður líkt og í við lok fyrsta þáttarins þar sem Sarandon stígur fram í gervi Baby Jane undir ljóskösturum við mikla skelfingu Lange í hlutverki Crawford.
Það verður gaman að fylgjast með framvindu mála og horfa á þær Lange og Sarandon takast á í þeim sjö þáttum sem eftir eru. Hver sería Feud mun, líkt og American Horror Story og American Crime Story, standa á eigin fótum og segja frá frægum deilum í mannkynssögunni. Til stendur að gera seríu sem fjallar um átök Díönu prinsessu og Karls Bretaprins sem endaði með skilnaði þeirra sem þótti mikill skandall á sínum tíma.
Hér má sjá stiklu úr þáttunum