fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024

Bryndís og ofbeldið – Viðtalið í heild sinni – „Ég held mig í sannleika og heiðarleika og er þess vegna ekki hrædd“

Ritstjórn Bleikt
Mánudaginn 6. mars 2017 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þú þekkir til manns sem beitir konur líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hann er kannski myndarlegur, og úr fjarlægð hefur hann ákveðinn sjarma. Svo fréttir þú af ofbeldi og ofsóknum hans gegn konum. Ekki bara einni konu heldur mörgum. Hvað hugsar þú? Var hann með áfengisvandamál, eða voru þessar konur kannski geðveikar eða óvenjulega pirrandi? Gæti þetta verið ýkjusaga frá sturluðum femínistum?

Hvaða viðbrögð sýnum við þegar okkur berast vondar upplýsingar eins og þessar um náungann? Verknaðurinn hefur átt sér stað – en mörg okkar hafa tilhneigingu til að byrja strax að draga úr eða réttlæta.


Þessu hefur Bryndís Ásmundsdóttir söng- og leikkona velt talsvert fyrir sér. „Hvers vegna segjum við seint og illa frá. Það er engu líkar en að við göngum í gegnum eins konar þöggunarþjálfun frá unga aldri. Það er visst ofbeldi falið í því. Við hvetjum litla krakka til að segja frá, svo þegar þau eldast eiga þau ekki að vera með of mikið vesen því það gera bara klöguskjóður. Svo á fullorðinsárum hættum við á að vera kallaðar kjaftatíkur eða eitthvað þaðan af verra.“
Hún segir að það sé bara víst okkar að tala um ofbeldi og segja frá. „Þó að fyrstu viðbrögð séu að þegja og rugga ekki bátnum er það skylda okkar. Ef við þegjum erum við að samþykkja ofbeldið.“
Bryndís bjó um þriggja ára skeið í ofbeldissambandi og upplifði að sögn allar tegundir ofbeldis. Nokkur ár eru síðan sambandinu lauk – en afleiðingarnar eru langvarandi. „Fyrst um sinn var ég dauðhrædd – hann ofsótti mig, og hræðslan gerði mig reiða. Ég þráði að ná mér niðri á honum með einhverjum hætti. Það geri ég ekki lengur.“

Bryndís segir skömmina sem fylgir þolendum ofbeldis hamlandi. „Skömmin hindrar mann bæði í að segja frá og að komast burt. Hún hverfur hins vegar með hverju orði sem ég tala um ofbeldið.“

Bryndís ákvað að byrja að tala um ofbeldið. Hún hefur unnið með sögu sína með leikhópi, í uppistandi og nú síðast í fyrirlestrum fyrir nemendur í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík.

„Gerandinn minn hringdi um daginn og bað mig að vera ekki að gaspra um sig úti um allt. Ég nefni hann þó aldrei á nafn í frásögn minni.“

Lemdu mig frekar

En af hverju talar konan svona mikið um þennan skelfilega tíma í lífi sínu?

„Ég þekki líkamlegt ofbeldi og andlegt ofbeldi – ef ég set þetta tvennt á vogarskálar – lemdu mig þá frekar. Marblettir fara og sár gróa, en andlega meinið er svo langvarandi og hvað ætla ég að gera við það. Mín leið er að tjá mig. Ég áttaði mig á því að með því að þegja var ég að gefa gerandanum söguna, því hann talar um mig og segir sína útgáfu. Útgáfu sem snýst mikið um hvað ég sé geðveik og ómöguleg í sambúð. Því meira sem við þegjum, því meira erum við að gefa gerandanum söguna. Í mínu tilfelli er ég að taka mér eignarrétt á sögunni minni – ég segi mína sögu hvenær sem mig lystir og hvar sem ég vil, og ég get lofað því að ég er ekki að ljúga neinu.“

En símtalið frá gerandanum hreyfði við Bryndísi. Líkt og önnur símtöl, tölvupóstur, SMS-skilaboð og athugasemdir frá honum augliti til auglits. Það gerist ennþá – þó að tíminn hafi liðið og hún sé komin áleiðis í úrvinnslu afleiðinganna.

„Ég fann að hugurinn fór beint í gamla farið – ég var undir eins byrjuð að efast um sjálfa mig. Þetta er endalaus vinna því hann var búinn að mata mig svo lengi á því að ég hefði rangt fyrir mér og að minni dómgreind væri ekki treystandi. Svona skilaboð fara inn í kroppinn og verða hluti af kerfinu og það tekur langan tíma að skola þau út. Efinn greip mig strax – er ég kannski bara svona biluð? Sem betur fer er ég orðin það sterk að ég sá þetta gerast og gat gripið mig í vitleysunni og dregið mig beint niður á jörðina aftur.“

Hún er ekki að vonast til að ná fram hefndum gagnvart ofbeldismanninnum með því að opna sig um sína hlið málsins.

„Markmið mitt er ekki að hanka hann á þessu. Ég segi frá því það er hluti af minni heilun og mínum bata. Það er ótrúlegur munur á því og á að hugsa „djöfull skal ég hefna mín“, líkt og ég gerði stundum áður. Ef ég get hjálpað einhverjum með því að miðla minni reynslu er ég þakklát og glöð – þá er markmiði mínu náð.“

Miðlaði reynslu til sálfræðinema

Hvernig skyldi hafa verið fyrir Bryndísi að standa frammi fyrir sálfræðinemum í Háskóla Reykjavíkur og segja þar sögu sína. Hún er ekki með gráðu í ofbeldisfræðum en er manneskja með reynslu.

„Mér hefur verið tekið afskaplega vel. Það er gott fyrir nemendur sem eyða langmestum tíma í námi sínu í að lesa bækur og niðurstöður rannsókna, að hafa kjötstykki fyrir framan sig – lifandi þolanda ofbeldis og heyra beint frá hennar munni hvaða afleiðingar ofbeldi hefur. Ég dreg ekkert undan í frásögninni og verð alveg blóðheit – því mér er hjartans mál að þolendur mæti skilningi þegar þeir leita til fagaðila.“


Bryndís miðlar reynslu sinni til verðandi fagaðila – en hún hefur líka nýtt hana í listsköpun. „Þó að það hljómi kannski öfugsnúið hef ég líka sagt frá ofbeldinu og fengið fullan sal af fólki til að hlæja. Stundum voru ástæður ofbeldisins svo út úr kortinu fáránlegar að frásögn í uppistandi meikar fullkominn sens.“

Hætti að nota áfengi

Margir sem eiga svipaða sögu og Bryndís nota hugbreytandi efni – til dæmis róandi lyf og áfengi – fólk drekkur til að flýja sársaukann og meika lífið.

„Ég tók ákvörðun um að hætta að nota áfengi til að deyfa sársaukann. Ég reyndi lengi vel að nota það til að finna svörin, en ég var farin að missa stjórn á lífi mínu og áfengið farið að taka yfir. Í minni edrúmennsku hef ég áttað mig á að alkóhólisminn byrjaði ekki bara skyndilega eftir ofbeldissambandið. Mín ofbeldissaga er lengri en það – til að mynda varð ég fyrir miklu ofbeldi 14 ára gömul þegar mér var nauðgað og ég afmeyjuð. Ég kem líka úr alkóhólískri fjölskyldu, svo þetta er samspil margra þátta.“

Bryndís er þekkt í þjóðfélaginu sem og í einum fyrirlestrinum í HR var hún spurð hvort hún væri ekkert hrædd um að ofbeldismaðurinn mundi bregðast illa við því að hún segði sögu sína opinberlega. „Í dag get get ég sagt nei ég er það ekki. En það er mjög stutt síðan ég var skíthrædd við það – enda sat hann um heimili mitt og hótaði mér ýmsu illu. Ef ég ætla að taka mér það leyfi til að segja mína sögu dettur mér ekki í hug að banna honum að segja sína útgáfu. Ef ég væri hrædd við að segja mína sögu – þá væri eitthvað bogið við hana. Ég held mig í sannleika og heiðarleika og er þess vegna ekki hrædd.“

Ástin ólýsanleg í upphafi

Lífið hélt áfram hjá ofbeldismanninum og eftir að sambandi hans og Bryndísar lauk hefur hann verið í nokkrum löngum samböndum – og það voru líka konur á undan henni – og þær verða kannski fleiri. Hvernig hugsar Bryndís til þessarra kvenna?

„Ég finn til með þeim og vona að einhver tali við þær. Hann er auðvitað búinn að undirbúa jarðveginn vel og segja öllum að ég sé geðveik. Ég veit hvernig er að vera í þessari stöðu í klóm hans – heilinn fer í pásu og skynsemin í frí. Ég ætlaði mér svo sannarlega að vera konan sem væri almennileg fyrir hann – því allar hinar höfðu verið ómögulegar. Eflaust hugsa þær þannig líka – enda er hann dásamlegur í upphafi sambands. Ástin er ólýsanleg, þú ert eina konan sem hefur verið góð við hann, eina konan sem getur gert hann hamingjusaman, allar aðrar konur hafa svikið hann og logið upp á hann, þú átt allt það góða í heiminum skilið, hann ætlar að elska þig og bera þig á höndum sér. Loforðin eru gríðarleg. Ef einhver reynir að sannfæra þig um að forða þér úr svona aðstæðum er kannski ofureðlilegt að hlusta ekki og loka á vinkonur sem tala illa um þennan dásamlega mann. Auðvitað veitir hann hvatningu alla leið, því það er mikilvægt fyrir ofbeldismanninn að einangra þolandann og rjúfa tengslanetið hans á sem flestum stöðum. Þetta er flókið, því allar þessar konur eru gáfaðar og klárar. Ég held að það mundi litlu skipta þó að hann hefði hlotið dóma fyrir heimilisofbeldi – afneitunin er svo sterk, já og vissan um að þú sért konan sem mun breyta honum.“

Hún segir skömmina líka leynast þarna. „Hún snýst ekki bara um það sem þolandinn lætur eða lét yfir sig ganga. Hugsaðu þér að komast út úr þessum aðstæðum og líta til baka á allt ruglið sem þú trúðir, hvernig þú hættir að hlusta á þitt eigið innsæi, góðu vinina sem reyndu kannski að rétta hjálparhönd og þú lokaðir á, og hvernig ákvörðun þín um að dvelja um kyrrt hafði kannski hræðileg áhrif á fólk í kringum þig – börn og aðra.“

Var allslaus en komst burtu

Bryndís segist tvisvar hafa reynt að flýja sambandið áður en henni tókst að komast burtu.

„Ég þurfti að búa til aðstæður til að hann trylltist og henti mér út sjálfur. Þannig gerði ég það. Í tvö fyrstu skiptinn náði hann mér aftur með fagurgala og samviskubiti – og reyndar óttanum. Í fyrsta skiptið var ég svo logandi hrædd. Þá beið hann eftir mér í runna fyrir utan staðinn þar sem ég gisti, komst inn til mín og tók mig hálstaki. Það gerði mér erfitt fyrir að hann var búinn að taka allt af mér og ég átti ekki neitt. Hann skammtaði mér peninga á viku, ég mátti ekki koma fram og skemmta fólki, ég var atvinnulaus og allslaus.“

Þeir sem þekkja Bryndísi vita að hún er langt frá því að vera lítil mús – hún er sterkbyggð kona, bein í baki og segir skoðun sína á hlutunum. „Í sambandinu minnkaði ég. Hann hefur stundum sagt að ég hafi beitt hann andlegu ofbeldi líka og það getur vel verið. Ég stóð ekki bara kyrr og leyfði honum að slá mig, berja og rakka mig niður – eðlilega reyndi ég að verja mig. Ég man eftir að hafa ýtt honum einu sinni frá mér af alefli, já og bankað í bringuna á honum þegar hann tók mig hálstaki. Auðvitað eru tvær hliðar á málinu.“

„Hann varð að fá nóg af mér“

Síðasta hálmstráið var sem sagt að pirra ofbeldismanninn það mikið að hann tæki sjálfur ákvörðun um að enda sambandið.

„Hann varð að fá nóg af mér. Ég gerði þetta með því að tuða endalaust, hætta að ganga frá eftir matinn og vera ömurleg húsmóðir. Þessir litlu hlutir gerðu hann brjálaðan. Í lokin var ég farin að sækja AA og Al-Anon fundi og styrkjast örlítið – hann þoldi það ekki. Hann henti mér að lokum út. Ég var eignalaus, atvinnulaus og allslaus með 3000 krónur í veskinu – samt fann ég fyrir létti og gleði. Fyrst um sinn gisti ég hjá vinafólki, en smám saman gat ég byggt líf mitt upp að nýju.“

Ofbeldismaður Bryndísar sætti sig illa við þetta. Hann reyndi að fá hana til baka, en þegar það gekk ekki tóku ofsóknir við. „Hann hringdi stöðugt, keyrði fram hjá heimili mínu, sendi sms og önnur skilaboð með hótunum. Hugmyndaflugið er mikið.“

Hafði fordóma gegn Stígamótum

Bryndís er mjög skýr í afstöðu sinni um að ofbeldi skuli talað í hel.

„Maður á að segja frá og maður á að segja eitthvað ef maður horfir á manneskju sem er við það að ganga inn í ofbeldissamband. Það eru til staðir ef þú treystir þér ekki til að tala við vinkonur. Þú getur áttað þig á eftir sautján ára hjónaband að þú þurfir að koma þér út úr ofbeldissambandi og þá getur verið flókið að leita til vina eða fjölskyldumeðlima. Stígamót eru einn þeirra staða sem hægt er að leita til. Ég man eftir fyrstu viðbrögðum mínum þegar mér var bent á að leita þangað. Glætan! Hugsaði ég. Það væri nú fyrir neðan mína virðingu. Ég var með svo mikla fordóma og fannst það ekki mér samboðið. Þegar örvæntingin óx ákvað ég að prófa – það var síðasta hálmstráið og ég sé sannarlega ekki eftir þeim degi þegar ég heimsótti Stígamót í fyrsta skipti. Eftir á að hyggja hefði þetta átt að vera það fyrsta sem ég gerði eftir að ég komst út úr sambandinu.“

Bryndís vonar að saga hennar hjálpi einhverjum þarna úti. „Ef við höldum áfram að þegja og samþykkja þá heldur ofbeldið áfram. Segjum frekar frá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 7 klukkutímum

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ná samkomulagi við Greenwood

Ná samkomulagi við Greenwood
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Vilhjálmur er með hugmynd um hvernig bjarga megi Akranesi en til þess þurfi hugrekki – „Við verðum að snúa vörn í sókn“

Vilhjálmur er með hugmynd um hvernig bjarga megi Akranesi en til þess þurfi hugrekki – „Við verðum að snúa vörn í sókn“
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Ronaldo versti sóknarmaður EM – Mjög óvænt nafn rataði á listann umdeilda

Ronaldo versti sóknarmaður EM – Mjög óvænt nafn rataði á listann umdeilda
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Svona lítur lið Evrópumótsins út

Svona lítur lið Evrópumótsins út
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Stórleikarinn kominn með nýja kærustu upp á arminn – Þremur árum eldri en dóttir hans

Stórleikarinn kominn með nýja kærustu upp á arminn – Þremur árum eldri en dóttir hans

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.