fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024

Kristín Maríella beitir áhugaverðri uppeldisaðferð – „Ekki að ástæðulausu að margir tala um að RIE hafi breytt lífi þeirra“

Ritstjórn Bleikt
Miðvikudaginn 19. apríl 2017 21:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Maríella býr í Singapúr þar sem hún rekur fyrirtæki sitt Twin Within og hefur það ljómandi gott með manni sínum og börnum.

Við birtum fyrri hluta viðtalsins við Kristínu Maríellu í gær – smelltu hér til að lesa.

Eitt af áhugamálum Kristínar er ákveðin uppeldisaðferð eða -stefna sem kallast RIE eða Respectful parenting. Kristín segir stefnuna heilan heim út af fyrir sig.

Að mínu mati er RIE byggt upp á þremur grunn-hugtökum en þau eru virðing, traust og tenging. Mér finnst það vera eins konar kjarni RIE sem stefnan gengur alltaf út frá. Við komum fram við börn af virðingu frá fæðingu. Við lítum á þau sem heila einstaklinga sem eiga rétt á því að komið sé fram við þau eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Við reynum eftir fremsta megni að sjá hlutina frá þeirra sjónarhorni og bjóðum þeim að taka þátt í lífinu strax frá fyrsta degi. Við tölum eðlilega við börnin okkar, sleppum öllu leikriti eða „baby-gimmík”, erum hreinskilin, örugg og róleg.

Kristín segir að innan stefnunnar sé mikil virðing borin fyrir mikilvægi leiks og reynt að trurfla ekki þegar barn er niðursokkið í leik. Barnið er stutt til að leika sér sjálfstætt og á sínum forsendum frá unga aldri.

Við treystum líka barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og „hjálpum” eða „kennum” þeim til dæmis ekki að snúa sér, setjast eða ganga.
Við treystum því og trúum að börn séu alltaf góð og vitum það að þegar þau sýna af sér óæskilega hegðun þá sé það vegna þess þau eigi einfaldlega erfitt með sig og vanti aðstoð eða hjálp frá okkur.
Við leyfum barni að tjá allar tilfinningar sínar og styðjum þau í gegnum erfiðar tilfinningar og grátköst, þannig myndum við mjög sterk tengsl við barnið. Við setjum tilfinningum ekki mörk en við setjum hins vegar hegðun mörk. Við setjum mörk á rólegan en öruggan hátt, þar sem við erum í tengingu við barnið og viðurkennum tilfinningar þess á sama tíma og við höldum mörkin.

Kristín segir helsta markmið RIE vera að byggja upp heilbrigt samband á milli foreldris og barns, samband sem báðir aðilar geta notið sín í, þar sem þörfum beggja er mætt af samkennd og virðingu.

Kostirnir margir

Hvernig kynntist þú þessari aðferðinni og hvaðan kemur áhuginn?

Ég datt inná bloggið hennar Janet Lansbury þegar eldri dóttir mín var um það bil 6 mánaða og þá var ekki aftur snúið. Þarna var komin rödd sem ég tengdi sterkt við og passaði einhvern veginn akkúrat inn í mína fílósófíu og hvernig ég vildi gera hlutina. Janet Lansbury er sem sagt ein helsta talskona RIE í dag og hefur gefið út bækur um þessa nálgun.

Að mati Kristínar eru helstu kostirnir við RIE hversu mikil áhersla er lögð á að treysta, slaka á og stíga niður úr hlutverkinu að vera endalaust að kenna, siða og skamma, eða hafa áhyggjur af barninu sínu.

Það er svo ótrúlega hollt og þarft að vera með raunsæja mynd af því hvers er hægt að ætlast til af börnum á hvaða aldri og skilja að allskonar „óæskilega” hegðun sem kemur foreldrum oft í opna skjöldu er fullkomlega eðlileg og eitthvað sem má búast við á mismunandi þroskastigum.
RIE krefst sjálfskoðunar því við þurfum að skoða það hvers vegna við bregðumst við börnunum okkar á þann hátt sem við gerum, af hverju vekur einhver ákveðin hegðun upp stress eða reiði hjá okkur en ekki einhver önnur? Hvernig tala ég við barnið mitt? Hvernig get ég komist á þann stað að tilfinningar og líðan barnsins míns hafi ekki áhrif á mig, hvernig get ég haldið ró minni?
Það er ekki að ástæðulausu að margir tala um að RIE hafi breytt lífi þeirra og að það að tileinka sér þessa nálgun þurfi aldrei að borga fyrir sálfræðitíma aftur!

Byrjað snemma

RIE er hugsað frá 0-2 ára (oft teygt upp til þriggja ára). Það er til mikið efni um RIE frá fyrsta degi, en það snýst mikið um tengslamyndun í gegnum ummönnunarverkefni, að tala við barnið eðlilega, láta það vita áður en við gerum hluti við þau eins og að taka þau upp og þess háttar. Setja þau ekki í „græjur” eins og leikstöðvar, hoppurólur, bumbo stola eða ömmustóla, leyfa nóg af frjálsri hreyfingu og leyfa þeim að læra að rúlla sér, setjast upp og labba alveg sjálf á sínum hraða.

Kristín segir þó að það sé aldrei of seint að byrja að tileinka sér RIE.

RIE er samskiptaleið og ákveðin hugarfarsbreyting sem hægt er að tileinka sér hvenær sem er. Eftir að maður byrjar að nota RIE þá breytist ekki bara samskiptamunstrið manns við börnin sín en líka hvernig við tölum og komum fram við fólkið í kringum okkur. Ég fann mikinn mun á sambandi og samskiptum mínum og mannsins míns eftir að við tileinkuðum okkur RIE svo þetta hefur áhrif á alla, sama hvaða aldur um ræðir!


Fyrir suma kann að virðast stórt skref að söðla algjörlega um til að tileinka sér RIE.

Ég segi alltaf að fólk þurfi að tileinka sér og nota það sem það tengir við. Þú tengir kannski ekki við allt sem RIE stendur fyrir og það er allt í lagi! Við erum öll á okkar einstöku vegferð og svo tengjum við mismunandi hluti á mismunandi tímum, það er óhugsandi að fara að tileinka sér allt í einu.
Það er eins með þetta og allt annað, það er ekki hægt að fylgja einhverju handriti bara af því að einhver uppeldisstefna segir að það sé frábært að gera hlutina svona eða hinsegin, við þurfum að tengja við það sem við ákveðum að gera og trúa á það. Aðeins þannig getum við unnið að breytingum frá hjartanu en RIE talar mikið um það hvað einlægni og hreinskilni skiptir miklu máli. Ef þú trúir ekki á það sem þú ert að reyna að tileinka þér eða það kemur ekki frá hjartanu, þá held ég að sama þó það sé RIE eða eitthvað annað þá muni það ekki virka neitt sérstaklega vel!

Kristín segist ekki vera beinlínis á móti neinu sem RIE stendur fyrir, þó að hún fari ekki algjörlega eftir sumum atriðum innan stefnunna.

RIE talar til dæmis um að við ættum ekki að nota burðarpoka eða burðarsjöl. Aðalástæðan fyrir því er sú að það skipti miklu máli að við séum í meðvitund með börnunum okkar þegar við erum saman, ekki með 50% athygli og símann í hinni til að mynda, og það sama á við með að halda á barninu framan á sér í burðarpoka, ef við gerum það mikið er svo mikil hætt á því að barnið sé nánast eins og fylgihlutur sem er hafður framan á okkur svo það hafi „hljótt” og við getum gert allt sem við þurfum að gera.
Ég er mjög sammála þessari grunnstefnu að reyna að vera 100% á staðnum og í meðvitund í kringum börnin okkar, þess vegna nota ég burðarpoka og sjöl sparlega og hef alltaf bak við eyrað að vera í tengingu við barnið sem er framan á mér.

Hvað með annað fólk?

Hvað skyldi fólki sem Kristín umgengst ásamt fjölskyldu sinni finnast um RIE?

Fólk í kringum mig er aðallega forvitið og vill fá að vita hvernig ég get haldið ró minni í stressandi aðstæðum og hvernig ég „fæ” dóttur mína til að vera svona samvinnuþýða. Fólk gapir oft yfir því hvað hún sættist fljótt við mörkin sem við setjum; þegar hún segir einfaldlega „ókei” þegar við neitum henni til dæmis um ís eftir sundið því það er að koma kvöldmatur. Mér finnst ég fá miklu frekar spurningar eins og „hvernig ferðu að þessu?” heldur en einhvern sem hneykslast.

Kristínu finnst RIE alls ekki vera öfgafull uppeldisaðferð.

Ef eitthvað er þá stendur RIE einfaldlega fyrir það að vera bara trúr sjálfum sér, vera einlægur, í tengingu við sjálfan sig og börnin sín, halda ró sinni, setja mörk sem þurfa að vera sett og vera skýr í samskiptum.
Að vissu leyti þá fellur RIE undir þessa „back to basics” hreyfingu sem maður sér að fólk er að tileinka sér á ýmsum sviðum. Minna er betra, gefa sér tíma og bara vera með börnunum sínum, ekki keppast við að kaupa það nýjasta eða besta, bara búa barninu til öruggt, einfalt og nærandi umhverfi þar sem allir geta slakað á og verið þeir sjálfir í friði.

Hvernig virkar það þegar barnið er annarsstaðar?

Mismunandi reglur gilda í mismunandi aðstæðum. Auðvitað reynir maður að velja það besta fyrir barnið sitt og þegar kemur að leikskólum þá mæli ég með því að skoða mikið og velja svo eitthvað sem maður tengir við.
Það skiptir auðvitað alltaf mestu máli að fólkið sem er í kringum börnin okkar sé með gott hjartalag og komi frá góðum stað. Þannig ættum við að vera óhrædd við að leyfa börnunum okkar að eiga einstakt samband við fólkið í kringum þau, en það þurfa ekki allir að bregðast eins við eða segja sömu hlutina. Það er hollt fyrir þau að læra að fólk er mismunandi. Hins vegar viljum við öll sem stundum RIE hafa áhrif og opna augun fyrir fólkinu í kringum okkur, sérstaklega þegar við sjáum hvað þetta hefur ótrúlega góð áhrif á börnin og auðveldar okkur lífið líka! Best er að eiga samtöl um stefnuna sem maður aðhyllist og byrja að tala um þau atriði sem skipta okkur mestu máli.
Það sem virkar síðan alltaf best er að vera fyrirmynd og með tímanum þá er líklegt að fólkið í kringum okkur byrji að spyrja okkur um það sem þau verða vitni af og sjái hversu vel barnið svarar því t.d. þegar við viðurkennum tilfinningar og þá eru allar líkur á því að þau tileinki sér það líka.

Hentar þetta öllum börnum?

Þetta hentar öllum börnum og öllu fólki. Þetta er hins vegar maraþon en ekki skyndilausn. RIE trúir ekki á skyndilausnir þó að flestir finni mun til hins betra á heimilishaldinu oft um leið og þeir byrja að tileinka sér þessa nálgun.

Samfélagsmiðlar og námskeið

Kristín er virk á Snapchat (kmariella) og segir þar frá RIE. Hvernig skyldu viðtökurnar hafa verið?

Ég hafði aldrei snappað og vissi ekki einu sinni hvernig snapchat virkaði áður en ég opnaði snappið mitt í byrjun þessa árs. Viðtökurnar voru strax mjög góðar og ég fann það fljótt að þessi miðill hentaði vel í að miðla boðskapnum áfram. Maður er ekki of hátíðlegur á snappinu, talar út frá sjálfum sér og sinni reynslu og þannig tengir fólk oft sterkt við það sem maður er að koma frá sér. Fylgjendahópurinn vex og vex og það er alveg á hreinu að það vantar rödd á þessu sviði á Íslandi. Þakkirnar, kveðjurnar og reynslusögurnar sem streyma inn heldur manni síðan gangandi og vinnan sem maður leggur í þetta verður öll þess virði.

Að upplagi segist Kristín ekki vera rútínu-týpan og vera mjög sveigjanleg í því hvernig hún lifir lífinu.

Ég hélt að ég myndi eiga mjög erfitt með það að halda rútínu með mín börn eða vera með fyrirsjáanlegar reglur sem ég héldi í til að búa þeim til öruggan ramma. En það hefur komið náttúrulega hjá mér með tímanum. Ég er ennþá sveigjanleg og lifi frekar mikið í flæðinu, sérstaklega stressa ég mig ekki mikið á klukkunni en ég bý auðvitað við þann lúxus að vera heimavinnandi með vinnustofuna mína heima svo að ég get leyft mér að gefa meiri tíma þegar það virðist vera það sem börnin mín þurfa. Ég fylgi samt ákveðnum grunnreglum, grunnrútínum, heimilisreglum og mörkum frekar vel en það er eiginlega bara vegna þess að ég nenni ekki að díla við það að setja og halda mörkunum aftur eftir að hafa vikið frá reglunni. Því ef við víkjum frá grunn-reglu af og til þá tekur alltaf við tímabil þar sem börnin prufa og prufa að fá reglunni breytt þangað til að þau fái aftur staðfestingu á því að við munum halda mörkunum, sama hvað þau reyni. Þannig að ég held ég fylgi reglum og rútínu meira en ég átta mig stundum á, það er svo gott fyrir börnin og mann sjálfan líka!

Ertu með einhverja uppáhalds vefsíður eða annað sem þið langar að mæla með?

Vefur Janet Lansbury er himnasending fyrir alla sem eru áhugasamir um RIE. Gerið bara ráð fyrir því að líta ekki af tölvuskjánum næstu 2 vikurnar þar sem þið sökkvið dýpra og dýpra inní heim Janet Lansbury og RIE, maður verður alveg háður!

 

Í júlí ætlar Kristín að bjóða upp á námskeið um RIE á Íslandi – og einnig vinnur hún að upplýsingasíðu um RIE þar sem hún hyggst deila reynslu sinni og birta góð ráð og upplýsingar.

Við þökkum Kristínu kærlega fyrir að deila með okkur þessari uppeldisstefnu sem svo margir eru að tala um! Ég vil endilega benda á snapchatið hennar „kmariella“ þar sem hún ræðir allt tengt RIE. Einnig er hægt að fylgjast með henni á Instagram.

Einnig er til íslenskur RIE facebook hópur sem áhugasamir ættu endilega að tékka á!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Bandarískur blaðamaður dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir njósnir í Rússlandi

Bandarískur blaðamaður dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir njósnir í Rússlandi
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Efnilegir KR-ingar frábærir í Portúgal og unnu mótið – Sjáðu svipmyndir úr úrslitaleiknum og fagnaðarlætin

Efnilegir KR-ingar frábærir í Portúgal og unnu mótið – Sjáðu svipmyndir úr úrslitaleiknum og fagnaðarlætin
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Rómantísk stund þegar Jakob bað Gerðar – Sjáðu myndbandið

Rómantísk stund þegar Jakob bað Gerðar – Sjáðu myndbandið
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Lindarhvoll: Milljónir í stjórnarlaun en engir stjórnarfundir – óheyrilegur lögfræðikostnaður en engar tímaskýrslur

Lindarhvoll: Milljónir í stjórnarlaun en engir stjórnarfundir – óheyrilegur lögfræðikostnaður en engar tímaskýrslur
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Adam lánaður til Ítalíu – Framlengdi á Hlíðarenda

Adam lánaður til Ítalíu – Framlengdi á Hlíðarenda
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Manchester United skellir verðmiða á McTominay

Manchester United skellir verðmiða á McTominay
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Gefa Arnari falleinkunn og setja spurningamerki við nokkrar ákvarðanir – „Við þurfum að tala hreint út í þessum þætti“

Gefa Arnari falleinkunn og setja spurningamerki við nokkrar ákvarðanir – „Við þurfum að tala hreint út í þessum þætti“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Þórarinn Ingi skoðar stöðu sína og íhugar að fara annað

Þórarinn Ingi skoðar stöðu sína og íhugar að fara annað