fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024

Hún sagði vinkonu frá kynferðislegri áreitni – „Áður en ég vissi af var hún farin að ausa yfir mig skömmum“

Ritstjórn Bleikt
Föstudaginn 26. maí 2017 10:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Femíníska vefritið Knuz birti í dag magnaða grein sem fjallar um þolendaskömm. Greinina ritar kona sem kýs að njóta nafnleyndar – en þar segir hún frá hörðum viðbrögðum vinkonu sinnar sem hún trúði fyrir atviki sem olli henni mikilli vanlíðan og snerist um grófa kynferðislega áreitni sameiginlegs vinar þeirra.

Við fengum góðfúslegt leyfi ritstjórna knúzsins til að birta þessa mikilvægu grein:

Ég hef ákveðið að skrifa um þolendaskömm, atvik sem ég lenti sjálf í og hvað gerðist þegar ég loksins þorði að segja vinkonu minni frá þessu.

Eftir að hafa upplifað harkaleg viðbrögð vinkonu minnar, þá sá ég að ég hef lifað í hinum fullkomna heimi, heimi þar sem umræðan um nauðgunarmenningu og þolendaskömm er svo opin, sjálfsögð og langt á veg komin en ég hafði rangt fyrir mér. Þess vegna vil ég vekja máls á þessu og ég hvet aðra þolendur kynferðisáreitis/ofbeldis til þess að gera slíkt hið sama. Umræðan þarf að vera stöðug, fræðsla til ungmenna/almennings þarf að vera stöðug og við megum ekki sofna á verðinum því þolendaskömm er raunverulegt vandamál sem veldur því að þolendur ofbeldis þora ekki að segja frá af ótta við neikvæð viðbrögð sinna nánustu.

Flestar konur hafa upplifað kynferðislegt áreiti af einhverju tagi. Auðvitað lenda karlmenn í þessu líka. En hjá karlmönnum er kynferðislegt áreiti og hlutgerving töluvert sjaldgæfara vandamál en hjá konum, þess vegna hallast þessi skrif frekar að upplifun kvenna en þau beinast til ykkar allra og þá skiptir aldur eða kynvitund engu máli.

Konur fá of oft sendar óumbeðnar ljósmyndir af getnaðarlimum í fullri reisn og allt upp í það, sem er líklega versta martröð og raunhæfur ótti flestra kvenna, að lenda í nauðgun.

Sjálf hef ég lent í áreiti frá ókunnugum mönnum en það var líka ókunnugur maður sem bjargaði mér í tæka tíð undan nauðgara. Aðrar konur, sem hafa lent í þeim sama nauðgara, hafa því miður ekki verið svo heppnar.

Eitt sinn reyndi drukkinn maður að heimta símanúmerið mitt eftir að hafa gert mjög andfúla og rakakennda tilraun til að klæmast í eyrað á mér. Hann fórnaði síðan stútfullum bjórnum sínum yfir mig alla þegar hann áttaði sig á því að þetta væri ekki að ganga upp hjá honum. Ég tala fyrir sjálfa mig þegar ég segi, að svona áreiti er eitthvað sem gerir mig virkilega reiða en fellur fljótt í gleymskunnar dá. Enda eru þetta ókunnugir menn sem skipta mig engu máli og það eru þeir sem tapa virðingunni, ekki ég.

Það var hinsvegar ekki fyrr en fyrir nokkrum mánuðum sem ég lenti í grófu, kynferðislegu áreiti af hendi manns sem ég treysti og taldi vera góðan vin minn og mannsins míns.

Því atviki mun ég aldrei gleyma, þó ég hafi ekki hlotið líkamlegan skaða af. Hann braut á mér, vanvirti mig og eyðilagði fyrir lífstíð það traust sem ég bar til hans og hann eyðilagði vinskap okkar allra.

Þetta atvikaðist þannig að ég var að sýna honum fallega útsýnið úr tiltölulega nýkeyptri íbúð okkar hjóna þegar hann skyndilega greip í brjóstið á mér. Fyrstu viðbrögð voru auðvitað að slá hendinni hans frá og grípa um sjálfa mig með báðum örmum áður en ég leit á hann óttaslegin og hissa. Átti þetta að vera eitthvað fyndið?

Því næst greip hann utan um mig með valdi og dró mig að sér, kleip aftur fast í brjóstið á mér og reyndi að kyssa mig með þeim afleiðingum að hann sleikti á mér kinnina þegar ég hörfaði undan. Ég þurfti virkilega að beita valdi til þess að halda honum frá mér, hann hunsaði öll mótmæli frá mér og ég var í raun orðin virkilega hrædd, því við vorum bara tvö ein í íbúðinni, maðurinn minn í vinnu úti á landi og því gat enginn komið mér til bjargar nema ég sjálf. Hann neitaði að fara og elti mig upp í rúm, þar sem ég lagðist fullklædd og vafði mig inn í sængina eins og burrito, svo hann kæmist ekki að mér. Hann reyndi að rífa utan af mér sængina þar til ég öskraði á hann að láta mig í friði og koma sér út eða ég myndi hringja á lögguna. Þá hætti hann en hann fór ekki, heldur dó hann áfengisdauða í rúminu, þeim megin sem maðurinn minn sefur þegar hann er heima. Ég hef sjaldan fundið fyrir jafn sárum söknuði og þessa nótt.

Í marga daga eftir þetta lá ég í rúminu í alvarlegu kvíða- og þunglyndiskasti. Ég og maðurinn minn höfðum átt svo margar yndislegar stundir með þeim hjónum. Allt var svo frábært og skemmtilegt, mikið hlegið, mikið drukkið og mikið borðað og það vantaði aldrei upp á umræðuefnin. Hvað hafði eiginlega gerst? Var ég að mikla þetta fyrir mér? Af hverju leið mér svona illa? Á ég að segja konunni hans frá þessu eða ekki? Hver verða hennar viðbrögð? Munu þau skilja? Verður hún reið við mig? Mun hún trúa mér? Hvers vegna ætti hún ekki að trúa mér? Hann hefur jú lagt á hana hendur svo ofbeldi er honum greinilega eðlislægt þó svo hann sé ægilega “næs gaur” út á við.

Á endanum kaus ég að segja henni ekki frá þessu, því ég vildi vernda hana fyrir þeim hugsunum og atburðum sem hugsanlega gætu fylgt og þar að auki vildi ég ekki eyðileggja vinskapin milli mín og hennar, líkt og sökin væri mín. En ég mun alltaf sjá eftir því að hafa ekki sagt henni frá þessu og veit satt best að segja ekki hvort ég finni nokkurntímann kjark til þess.

Á þeim mánuðum sem hafa liðið höfum við ekki hitt þau hjónin oft en mér líður alltaf illa í kring um þau. Hann vegna þess hvað hann gerði og hana vegna þess að ég sagði henni ekki frá. Ég hef samt alltaf verið kurteis við hann, eflaust meðvirk og alltaf hrædd um að ég sé að gera úlfalda úr mýflugu. En ég hef mikið hugsað um það sem gerðist og það vekur alltaf upp kvíða, samviskubit, reiði og fleiri neikvæðar tilfinningar og það er tiltölulega stutt síðan að ég áttaði mig á því að hann beitti mig í raun ofbeldi.

Ég tók þá skyndiákvörðun, fyrir skömmu síðan, að trúa sameiginlegri vinkonu okkar fyrir þessu. Við vorum að drekka og þetta var hvorki staður né stund til þess að segja frá þessu. Ég gerði það nú samt og áður en ég vissi af var hún farin að ausa yfir mig skömmum. Hún hélt yfir mér einræðu sem snerist um að ég hlyti annaðhvort að vera að ljúga þessu eða að ég gæti sjálfri mér um kennt, vegna þess að ég hefði drukkið of mikið þetta kvöld og henni fannst virkilega rangt af mér að segja svona ljóta hluti um þennan indæla mann. Svo reið var hún, að ég kom ekki einni setningu að til þess að verja mig fyrir orðum hennar og á endanum gafst ég upp og við hjónin fórum snemma heim þar sem ég átti erfitt með að halda aftur af tárunum.

Kannski var hún í sjokki og þetta voru vanhugsuð viðbrögð hjá henni. En hvers vegna hefur hún þá ekki beðið mig afsökunar á því hvernig hún talaði niður til mín og rengdi mig þar sem ég sat með tárin í augunum og sagði henni frá þessu?

Það er að öllum líkindum vegna þess að hún telur skömmina liggja mín megin. Indælir menn gera nefnilega ekki svona. Indælir menn lemja ekki konurnar sínar og indælir menn beita ekki kynferðisofbeldi. Indælir menn klæðast skyrtum sem þeir girða ofan í pressuðu buxurnar sínar, segja brandara og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að láta öðrum líða vel.

Ekki þessi indæli maður.

Þar að auki hef ég heyrt hana fullyrða það, að hún sé sko ekki femínisti.
Hún lítur greinilega á sjálfa sig og aðrar konur sem óæðri og að það sé okkur að kenna ef okkur er nauðgað eða ef við verðum fyrir kynferðislegu áreiti. Bros okkar og hlátur eru daðurverkfæri sem við eigum að fara sparlega með, annars erum við að bjóða hættunni heim.

Reyndar er ekki óalgengt að fólk kenni þolanda um til þess að fjarlægja sjálft sig úr óþægilegum aðstæðum eða þeirri tilhugsun að það geti sjálft lent í áreiti/ofbeldi. Það finnur til öryggis með því að fjarlægja sig frá þeirri hegðun sem það sér hjá þolanda.

„Ég drekk ekki, þess vegna mun mér ekki verða nauðgað.”

„Ég klæði mig ekki í pils, þess vegna mun mér ekki verða nauðgað.”

Fólk sér gerendur líka sem skrímsli eða sveitt perraógeð með comb-over og opna buxnaklauf en ekki sem vini, frændur, feður eða bræður sem eru allir svo duglegir að hjálpa mömmu að versla og eru svo góðir við dýr.

Það sem gerir reynslu margra þolenda enn verri, er þegar þeim er ekki trúað eða þeim jafnvel kennt um. Frásagnir þeirra eru uppnefndar sem óþarfa drama, athyglissýki eða lygar. Það kennir þolendum að halda bara kjafti og hætta þessu rugli, sem verður til þess að allt of margir þolendur ganga um með nagandi vanlíðan, efasemdir, sektarkennd, kvíða og ótta við skilningsleysi eða jafnvel reiði.

Ef einhver trúir þér fyrir sinni upplifun, viltu þá hlusta á og styðja viðkomandi? Ekki draga heiðarleika vina þinna í efa. Ef vinur þinn eða vinkona trúir þér fyrir þessu, þá hefur hann/hún að öllum líkindum þurft að telja í sig mikinn kjark til þess að segja frá sinni reynslu og hefur jafnvel borið þetta með sér í langan tíma.

„Þú hefðir ekki átt að vera í pilsi.”

„Þú brostir svo daðurslega til hans og hlóst að bröndurunum hans.”

„Hvað varstu að gera ein með honum ef þú vildir þetta ekki?”

„Ertu viss um að þú hafir ekki viljað þetta?

„Ertu viss um að þú hafir sagt Nei?”

„Þú hefur lent í þessu áður, þú verður að passa þig betur.”

Þessar spurningar og staðhæfingar, skalt þú hér með, setja á bannlista þar sem þær eru niðrandi og hreint út sagt viðbjóðslegar. Það getur enginn sjálfum sér um kennt fyrir að lenda í kynferðisáreiti eða –ofbeldi, heldur er það val gerandans að beita því.

Höfundur óskar nafnleyndar virðingu við nánustu fjölskyldu gerandans.


Greinin birtist fyrst á Knuz.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Hundar fluttir í hitasjokki á dýraspítala á Akureyri – Einn nærri dauða en lífi

Hundar fluttir í hitasjokki á dýraspítala á Akureyri – Einn nærri dauða en lífi
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Margir hissa er þeir heyrðu af launum nýjasta leikmanns Manchester United

Margir hissa er þeir heyrðu af launum nýjasta leikmanns Manchester United
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Pipar níunda áratugarins vísað úr flugi – Beðin um að gefa eftir sæti sitt

Pipar níunda áratugarins vísað úr flugi – Beðin um að gefa eftir sæti sitt
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Mbappe bað aldrei um þetta – „Virði hann svo mikið“

Mbappe bað aldrei um þetta – „Virði hann svo mikið“
Eyjan
Fyrir 19 klukkutímum

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Ná samkomulagi við Greenwood

Ná samkomulagi við Greenwood

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.