Knúz.is gagnrýnir verkefni Þórunnar Antoníu um að útbúa sérstaka límmiða sem límdir eru ofan á glös og koma í veg fyrir að hægt sé að lauma nauðgunarlyfi ofan í þau.
„Hugmyndin kviknaði út frá sorg og vanmáttarkennd stúlku sem er mér afar kær og var byrlað lyf á skemmtistað og nauðgað,“
sagði Þórunn Antonía í samtali við Fréttablaðið. Sama dag og Þórunn Antonía heyrði af máli konunnar tók hún við störfum sem kynningarstjóri Secret Solstice. Þegar hún var á leið á fund með auglýsingastofu ásamt teyminu sínu fékk hún hugmynd að láta búa til filmu eða miða sem fólk getur sett yfir drykkinn sinn.
„Við ættum auðvitað ekkert að þurfa að vera að pæla í svona löguðu, það er í raun fáránlegt. En staðreyndin er sú að það er fólk sem er að gera þetta af ásettu ráði sem er enn þá fáránlegra og flestum algjörlega óskiljanlegt,“
sagði Þórunn Antonía. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er verndari verkefnisins og tekur þátt í að vekja athygli á því. Verkefnið hefur fengið misjöfn viðbrögð. Jákvæð viðbrögð á þann hátt að þetta sé flott átak gegn kynferðisofbeldi og vekur öryggiskennd, og neikvæð viðbrögð á þann hátt að þarna sé verið að setja það í hendur kvenna að sjá til þess að þeim verði ekki nauðgað. Maður hugsar til þeirra athugasemda sem margar konur og stúlkur hafa fengið að heyra í gegnum ævina. Til að forðast nauðgun á maður ekki að fara út í of stuttu pilsi, maður á að vera í þröngum hjólabuxum undir kjólnum (helst tvennum), ekki drekka of mikið og ekki vera með of mikla brjóstaskoru. Eru límmiðarnir átak gegn kynferðisofbeldi eða hluti af þeirri ósanngjörnu ábyrgð sem er varpað á konur svo þeim verði ekki nauðgað?
Knúz.is var ekki hrifið af verkefninu og gagnrýndi það á Facebook síðu sinni: „Er þetta vænlegt til árangurs? Hvers konar samfélag er það þegar konur neyðast til að líma yfir glösin sín til að forðast byrlun og nauðgun?“