Guðrún Sverrisdóttir starfaði sem hjúkrunarkona í 40 ár á sviði Slysadeildar Borgarspítalans þar sem hún kynntist öllum hliðum og þáttum mannlífsins. „Oft fór maður heim, miður sín og bugaður eftir sumar spítalavaktirnar. Heimilisofbeldi, misnotkun á börnum og misþyrmingar á konum var einnig tilfinningalega erfiðast að vinna við og taka á móti,“ skrifar Guðrún í grein sem birtist fyrst á Kjarnanum. Í greininni segir hún frá ofbeldi sem dóttir hennar varð fyrir en máli hennar var vísað fá vegna formgalla frá hendi ákæruvaldsins.
„Fyrir tveimur árum síðan stóð ég sjálf berskjölduð frammi fyrir ljótleika heimilisofbeldis,“
skrifar Guðrún. Myndir um þau ljótu tilvik ofbeldis sem Guðrún hafði séð og tekið á móti á Slysadeild birtust skyndilega heima hjá henni. Yngsta dóttir hennar kom heim til hennar eftir að hafa sloppið úr klóm mannsins sem hún bjó með.
„Hafði hann meira og minna misþyrmt henni alla nóttina og svipt hana frelsi til útgöngu úr húsinu. Fyrir framan mig stóð unga, fallega, góða dóttir mín – niðurbrotin manneskja á líkama og sál. Sítt hárið hékk í tætlum niður eftir bakinu eftir að hann dró hana fram og til baka á hárinu. Hársvörðurinn var þakinn kúlum. Hún var rispuð og marin í andliti. Hálsinn var þakinn marblettum beggja vegna eftir kyrkingstak fingra. Eyrun bólgin, hvellrauð og brjóskið marið eftir að hann hélt í eyrun til að lemja höfðinu niður í stólinn og steingólfið. Það blæddi úr eyrnahlustinni öðru megin. Skafsár voru á herðablöðum og mjóbaki eftir að hann dró hana á bakinu eftir steingólfinu. Fingraför/marblettir voru á báðum framhandleggjum. Rispuð og marin á mjöðm og fótum, helaum yfir brjóstbeini,“
Guðrún segir að hann sé sterkur maður og lítið mál fyrir hann að keyra dóttur hennar ofan í stólinn, lyfta henni upp á samt stólnum og skella henni, baki og höfði, ítrekað í gólfið. Hins vegar var ekki dæmt í málinu og var því vísað frá Hæstarétti vegna formgalla frá hendi ákæruvaldsins.
Erna Guðmundsdóttir, Ransý Guðmundsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir, systur konunnar, tjáðu sig um málið í aðsendri grein til Kjarnans. Þar gagnrýna þær dómskerfið harðlega og útskýra hvað varð til þess að Hæstiréttur vísaði málinu frá. Mistök lögreglu, eins og að gleyma að kveikja á upptökutæki við skýrslutöku og senda ofbeldismanninum bréf um að rannsókn málsins væri hætt, fyrir þann tíma sem dóttir Guðrúnar hafði til að staðfesta kæruna, leiddu til þess að málinu var vísað frá.
„Mistök á mistök ofan ollu því að máli dóttur minnar, Guðrúnar Guðmundsdóttur (Rúnu) var vísað frá Hæstarétti vegna formgalla frá hendi ákæruvaldsins. Að öðlast réttlæti fyrir ranglæti – fór fyrir lítið. Hver ætlar að svara fyrir það?“
skrifar Guðrún Sverrisdóttir í grein sinni sem lesa má í heild sinni á vef Kjarnans.