fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024

Vinur mannsins í 10.000 ár

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 18. júní 2017 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Greinin birtist fyrst á vefsíðu Lifandi Vísindi og fékk Bleikt góðfúslegt leyfi til að birta hana með lesendum.


Egyptar til forna eru sagðir eiga heiðurinn af því að hafa fyrstir allra haldið ketti og er álitið að þeir hafi gert það í 3.600 ár. Franskir fornleifafræðingar hafa hins vegar fundið 9.500 ára gamla gröf á eynni Kýpur með manni og ketti í. Erfðafræðirannsóknir hafa leitt í ljós að um heimiliskött var að ræða.

Mynd/Getty

Kettir eru óvanaleg heimilisdýr. Þeir eru einfarar af náttúrunnar hendi og vernda eigin yfirráðasvæði, sem jafnframt táknar að þeir bindast frekar tilteknum stöðum en fólki.

Það er víst ekki djúpt í árina tekið að halda því fram að kettir fari ekki eftir fyrirmælum annarra og þegar við hugsum til þess að flest önnur villt dýr, bæði fyrr og nú, hafa verið tamin vegna kjötsins, ullarinnar, mjólkurinnar eða vegna nýtilegs vinnuframlags, þá stingur í stúf að kettir skuli ekki leggja neitt af mörkum eða nýtast á neinn hátt okkur mönnunum til framdráttar. Kettir eru raunar dugmiklir músaveiðarar en merðir og hundar af grefilkyni nýtast enn betur við músaveiðar.

Fræðimenn hafa furðað sig á því árum saman hvernig á því standi að villtir kettir fóru að lifa í samneyti við manninn og hvenær og hvers vegna þeir breyttust í elskaða, eða hataða, heimilisketti. Á síðustu fimm árum hefur tekist, með hjálp fornleifarannsókna og nýjustu erfðafræðirannsókna, að varpa ljósi á uppruna heimiliskatta og skilja betur hvernig á því stóð að þeir tengdust mönnunum.

Fræðimenn héldu til þessa að Egyptar hefðu tamið villta köttinn fyrir 3.600 árum. Árið 2004 fann hópur franskra fornleifafræðinga, undir stjórn Jean-Denis Vigne frá Náttúruvísindasafninu í París, 9.500 ára gamla gröf á Kýpur. Í gröf þessari var að finna fullorðinn mann, ásamt steináhöldum og nokkrum kræklingaskeljum. Um það bil 40 sm frá manninum fannst svo beinagrind af átta mánaða gömlum ketti í sinni eigin gröf. Vitað er að villikettir hafa aldrei lifað á Kýpur og kötturinn í gröfinni segir okkur að menn og kettir hafi lifað í náinni snertingu í að minnsta kosti 9.500 ár.

Mynd/Getty

Heimiliskötturinn hefur að öllum líkindum borist til Kýpur frá strandsvæðunum í því sem núna kallast Líbanon eða Sýrland og það er engin tilviljun að elstu minjar um heimilisketti hafa fundist í þessum hluta heimsins. Árið 2007 komst stór hópur vísindamanna, hvaðanæva úr heiminum, að raun um að heimiliskettir ættu rætur að rekja til Mið-Austurlanda. Vísindamennirnir rannsökuðu erfðaefni 979 ólíkra heimiliskatta og villtra katta. Rannsóknin tók af nokkurn vafa, því með erfðaefni villtu kattanna var unnt að tengja þá beint við hina ólíku staði sem þeir höfðu lifað á. Þá komu enn fremur í ljós fimm deilitegundir villtra katta: evrópska kynið, hið suður-afríska, mið-afríska kynið, Mið-Austurlandakynið og að lokum kínverski fjallakötturinn.

Allar rannsóknir á heimilisköttum leiddu í ljós að þeir væru náskyldir villta kettinum í Mið-Austurlöndum. Heimiliskötturinn á því rætur að rekja til Mið-Austurlanda og ekki annarra staða sem villtir kettir eru útbreiddir á, en það svæði nær alla leið frá Suður-Afríku til Skotlands og frá Portúgal til Kína.

Erfðafræðirannsóknin leiddi enn fremur í ljós að heimiliskettirnir búa yfir sama erfðafræðilega fjölbreytileikanum og villtir frændur þeirra. Vísindamennirnir telja fyrir vikið að heimiliskötturinn hafi ekki gengið í gegnum erfðafræðilegan flöskuháls, líkt og á sér stað þegar kyn verður til úr mjög fáum einstökum dýrum, en þeir hafa rakið ættmæður heimiliskattanna til fimm ólíkra kynja af villtum köttum. Þegar á heildina er litið benda rannsóknirnar til þess að heimiliskötturinn hafi verið í mótun í mjög langan tíma og að villtir kettir og heimiliskettir hafi getið afkvæmi saman á þessu tímabili. Að öllum líkindum hefur þessi þróun tekið þúsundir ára.

Kötturinn valdi okkur sjálfur

Næsta mikilvæga spurningin er svo: Hvers vegna varð villti kötturinn þá að húsdýri? Villtir kettir sjá manninum hvorki fyrir kjöti, mjólk, ull né skinni. Þá er hvorki hægt að nota til að flytja menn né hluti, auk þess sem erfitt er að temja villta ketti. Flest önnur dýr lifðu upprunalega í hjörðum með mjög ákveðinni stigskiptingu, þar sem maðurinn gat tekið við hlutverki leiðtogans og þar með reyndist honum nokkuð auðvelt að hafa stjórn á heilli hjörð dýra. Að undanskildum ljónum eru kattardýr einfarar sem taka ekki við skipunum frá leiðtoga. Þau gera eins og þeim sýnist.

Mynd/Getty

Í fyrstu byggðarlögunum á frjósama hálfmánanum í Mið-Austurlöndum, sem einnig hefur verið nefndur vagga siðmenningar, mótaðist fyrir 10.000 árum nýtt umhverfi sem óþekkt hafði verið til þessa. Byggð, akrar, kornhlöður og ruslahaugar mynduðu í sameiningu umhverfi sem bauð upp á mýmörg tækifæri fyrir öll villt dýr sem væru nægilega sveigjanleg, forvitin eða soltin til að notfæra sér aðstæðurnar.

Þetta fólk, sem hafði fasta búsetu, bauð upp á frjósaman afkima í vistfræðinni, þar sem nóg var að bíta og brenna allan ársins hring og lítið um rándýr. Spörfuglar, rottur og mýs voru fyrstu dýrin sem lærðu að notfæra sér manninn, vistir hans, svo og úrganginn. Litla, feimna húsamúsin á rætur að rekja til Indlands en fornleifafræðingar hafa fundið ummerki um hana í elstu kornhlöðum sem fundist hafa, en um er að ræða 10.000 ára gamla hlöðu í Ísrael. Hlöðurnar löðuðu að sér mýs, og mýsnar síðan villta ketti.

Carlos Driscoll og David Macdonald við háskólann í Oxford hafa stundað rannsóknir á köttum svo árum skiptir, ásamt Stephen O’Brien, sem starfar hjá bandaríska krabbameinsfélaginu, en talið er að rannsóknir á köttum geti svarað mörgum spurningum um krabbamein.

Þremenningarnir eru ekki þeirrar skoðunar að fyrstu þorpsbúar og bændur í vöggu siðmenningarinnar hafi haft nokkurn áhuga á að temja villta ketti á svæðinu og fá þá til að fjölga sér. Þeir telja á hinn bóginn að þorpsbúarnir hafi einfaldlega umborið villtu kettina, sökum þess að þeir hafi ekki beinlínis verið til vandræða í þessum fyrstu þorpum heims. Fyrstu tengsl okkar við ketti hafi nánast byrjað sem skynsemishjónaband og það síðan þróast yfir í mjög náið ástarsamband. Þegar frá leið urðu þorpskettirnir stöðugt ólíkari villtu köttunum og að lokum varð sérstök deilitegund þeirra til.

Kettir í dag eru með litla heila

Tamda deilitegundin líkist villtum köttum mjög mikið. Helsti munurinn er fólginn í feldinum, því feldur heimiliskatta getur verið mynstraður á óteljandi vegu og svo eru hárin einnig mislöng. Þá eru heimiliskettir enn fremur með styttri fætur og minni heila en þeir villtu og líkt og Charles Darwin veitti athygli, þá eru heimiliskettir með lengri meltingarfæri en hinir, sem hugsanlega stafar af þróunarfræðilegri aðlögun til þess að geta bætt sér upp kjötát með úrgangi úr eldhúsi mannsins. Heimiliskettir hafa jafnframt breyst í meiri félagsverur eftir að þeir kynntust manninum. Raunverulegir villtir kettir eru einfarar og eina félagslega samneyti þeirra er fólgið í uppeldi kettlinga, sjálfri eðluninni, svo og slagsmálum um yfirráðasvæði. Villikettir í stórborgum lifa hins vegar saman í stórum eða smáum hjörðum, en kettir á sveitabæjum éta oft saman, verja nóttinni saman eða sleikja sólina saman.

Mynd/Getty

Kettir veita svör við sjúkdómum

Hefðbundin húsdýr á borð við hunda, kýr, kindur og geitur hafa verið alin frá því að dýrahald fyrst hófst en fyrstu heimiliskettirnir eru fyrst og fremst afleiðing náttúruvals. Vísindamennirnir Driscoll, Macdonald og O’Brien gera ráð fyrir að minnst 97 prósent af þeim milljarði heimiliskatta sem reiknað er með að lifi í dag séu annaðhvort blendingar ellegar hálfgerðir villikettir. Þetta gefur til kynna að næstum allir kettir ráði makavali sínu sjálfir og séu því afsprengi náttúruvals, þó svo að þeir í raun lifi í heimi sem maðurinn hefur skapað þeim.

Einungis örlítið hlutfall katta er afsprengi ræktunar af hálfu eigenda þeirra og slíkt var með öllu óþekkt fyrir 150 árum. Fyrsta sýningin á ræktuðum köttum var haldin í Crystal Palace í London árið 1871 og í dag viðurkennir alþjóðlega kattaræktendafélagið, Fédération Internationale Féline, alls 42 ólík kattakyn. Einstaka kyn hafa þó verið þekkt í hundruð ára, til dæmis síamskötturinn frá Tælandi, sem Búddamunkar lýstu í bók árið 1350. Grannur síamskötturinn, með bláu, möndlulöguðu augun er þó sennilega afsprengi kynhvatar kattanna í hofunum, umfram það að vera afurð ræktunar af manna völdum, vegna þess að hann og aðrir tamdir austur-asískir kettir lifðu í einangrun.

Heimiliskettir í dag eru bæði sýningardýr, mannelskar skepnur og músaveiðarar. Á undanförnum áratugum hafa heimiliskettir einnig ratað inn í rannsóknarstofur, þar sem þeir hafa séð fyrir mikilvægum upplýsingum í tengslum við tilraunir með lyf. Læknar og líffræðingar hafa til þessa greint alls 138 arfgenga sjúkdóma í köttum, sem þegar hafa látið læknum í té nýjar upplýsingar um sambærilega sjúkdóma í mönnum, ellegar eiga eftir að gera það. Um er að ræða jafn ólíka sjúkdóma og liðagigt, sykursýki og flogaveiki.

Fyrir utan þessa arfgengu sjúkdóma veikjast kettir jafnframt af smitandi sjúkdómum á borð við fuglaflensu, sem einnig leggst á menn. Rannsóknir á hvítblæðisveiru í köttum hafa leitt í ljós mörg krabbameinsskyld gen í mönnum og banvæna kattaalnæmisveiran, FIV, hefur fært okkur lífsnauðsynlega vitneskju um alnæmisveiruna, HIV. FIV ræðst á CD4-T eitilfrumur, líkt og HIV-veiran gerir, með þeim afleiðingum að ónæmiskerfið hrynur.

Þó svo að kettir komi að gagni í dag sem t.d. músabanar, þá hefur okkur enn ekki tekist að temja villta köttinn algerlega. Kötturinn fer ennþá sinna eigin ferða en er engu að síður afsprengi 10.000 ára náttúruvals í heimi þar sem maðurinn ræður ríkjum.


Hér getur þú lesið fleiri greinar á Lifandi Vísindi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Jökull á heimleið
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Yana og fjölskylda hennar urðu fyrir hrottalegri árás á Krít – „Ástand hans er alvarlegt og við biðjum öll fyrir honum“

Yana og fjölskylda hennar urðu fyrir hrottalegri árás á Krít – „Ástand hans er alvarlegt og við biðjum öll fyrir honum“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Frá Flórens til Nottingham

Frá Flórens til Nottingham
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Styttist í að stóra fíkniefnamálið komi fyrir dóm

Styttist í að stóra fíkniefnamálið komi fyrir dóm
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Yfirgefur Sádi-Arabíu og tekur áhugavert skref

Yfirgefur Sádi-Arabíu og tekur áhugavert skref
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Upp úr sauð í Breiðholti: Viðstaddir fullyrða að Baldvin segi ekki alla söguna – „Framkoma hans var til skammar“

Upp úr sauð í Breiðholti: Viðstaddir fullyrða að Baldvin segi ekki alla söguna – „Framkoma hans var til skammar“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Vill taka við enska landsliðinu

Vill taka við enska landsliðinu

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.