Hvernig reiðir barninu þínu af í samanburði við önnur börn þegar kemur að hlutum eins og málskilningi, skrift eða öðrum grundvallarþáttum? Sálfræðingurinn Janine Spencer við Brunel-háskóla hefur sett saman lista yfir tuttugu og tvö atriði sem börn ættu að geta gert áður en þau byrja í grunnskóla. Þau munu koma betur undirbúin fyrir skólagönguna og létta þeim lífið verulega þegar loks er sest á skólabekk. Listinn birtist fyrst í vefútgáfu breska blaðsins Mirror. Þar er jafnframt tekið fram að foreldrar eiga ALLS ekki að örvænta þó barnið kunni ekki öll þessi atriði. Hér eru aðeins nefnd atriði sem börn hefðu gott af því að kunna.
Lestur og skrift er eitthvað sem hljómar eins og sjálfsagður hlutur en staðreyndin er sú að þetta tvennt er eitt það erfiðasta fyrir börnin að læra. Það er góð byrjun að kenna barninu að skrifa nafnið sitt. Notaðu liti, til dæmis tréliti, til að koma barninu í rétta skapið.
Að kunna stafrófið er eitt af grundvallaratriðum þess að kunna að skrifa texta. Hægt er að notast við allskonar bækur, lög eða jafnvel smáforrit í iPad til að hjálpa til við þetta. Samhliða þessu er gott að kenna barninu að skrifa stafina. Sum börn ruglast stundum, til dæmis á stafnum b og d, en mundu, þolinmæðin þrautin vinnur allar.
Flestum börnum þykir gaman að syngja og það er því um að gera að nota þann áhuga til góðra verka. Það getur hjálpað börnum í öðrum verkefnum að læra lagatexta eða laglínur – það er góð æfing fyrir heilann. Gefðu sjálfum þér lausan tauminn og syngdu með barninu þínu, þú þarft ekki að skammast þín fyrir að vera falskur eða fölsk.
Það er grundvallaratriði í mannlegum samskiptum að kunna að deila með öðrum og vera sanngjarn eða sanngjörn. Því fyrr sem barn lærir það, þeim mun betra. Byrjaðu á að hrósa barninu þínu ef það deilir til dæmis leikfangi með öðru barni, til dæmis systkini.
Leyfðu þeim að leika sér í tölvunni, eða iPadinum, undir eftirliti. Kenndu barninu þínu að hreyfa músina. Þar sem margt snýst orðið um tölvur hafa öll börn gott af því að kunna grundvallaratriðin í tölvunotkun.
Barn sem er eigingjarnt eða sjálfselskt er ekki líklegt til að njóta vinsælda meðal jafnaldra sinna. Þess vegna er mikilvægt að börnin þekki muninn á réttu á röngu, bæði í gjörðum og eins í samskiptum. Þú átt til dæmis að taka það föstum tökum ef barnið sýnir ofbeldisfulla tilburði, eins og að slá til annars barns.
Við eigum til að mata börnin okkar jafnvel þó þau séu fullfær um að borða sjálf. Mögulega gerum við það til að koma í veg fyrir sóðaskapinn sem stundum fylgir. Þegar í skólann kemur verðurðu ekki til staðar til að mata barnið þitt – kennarinn mun ekki heldur gera það. Kenndu barninu þínu að nota skeið og gaffal. Sama má segja um klæðnaðinn. Kenndu barninu þínu að klæða sig sjálft, jafnvel þó það taki aðeins meiri tíma en ef þú myndir gera það.
Mörg börn eru feimin við að láta ljós sitt skína í nálægð við önnur börn. Reyndu að hvetja barnið til að gefa sjálfu sér lausan tauminn og hafa samskipti við önnur börn.
Það getur hjálpað börnum á ýmsa vegu að gefa ímyndunaraflinu og sköpunarkraftinum lausan tauminn. Hvettu barnið til að segja þér sögur. Það getur hjálpað barninu að ná upp orðaforða og gefið þeim góða æfingu í tjáningu. Spencer hvetur foreldra líka til að segja börnunum sögur, hversu skrýtnar eða furðulegar sem þær eru.
Börn verða að læra að tileinka sér sjálfstæð vinnubrögð. Þetta þýðir að þau þurfa að kunna ýmis grundvallaratriði daglegs lífs. Spencer segir að hægt sé að kenna börnum þetta hægt og rólega. Til dæmis þegar byggt er úr Lego-kubbum að láta barnið sjá um að byggja og leysa þau vandamál sem kunna að koma upp. Ef barnið lendir í öngstræti skaltu aðstoða það.
Barnið hefur gott af því að taka þátt í umræðum og ákvörðunum innan veggja heimilisins. Það getur búið barnið undir það sem koma skal í skólanum, til dæmis þegar unnið er í hópum o.s.frv. Leyfðu barninu að taka ákvörðun um það sem gera skal, til dæmis á laugardagskvöldi. Leyfðu barninu að velja hvað er í matinn eða hvaða teiknimynd er horft á.
Börn eiga það til að vera sveimhugar, eiga stundum erfitt með að einbeita sér að einhverju einu. Reyndu að fá barnið til að halda athygli við eitthvað eitt í drykklanga stund. Láttu það gera það sem því finnst skemmtilegt að gera, til dæmis lita, leira eða púsla.
Settu þrjár kartöflur á disk, láttu barnið borða eina og spurðu svo hvað eru margar eftir. Tölur skipta auðvitað stóran sess í lífi fólks og því fyrr sem það tileinkar sér að nota tölur því betra. Reyndu að þjálfa barnið í þessu á hverjum degi. Teldu skrefin út í bíl, teldu hvað þið sjáið mörg tré eða marga bíla á bílastæðinu. Þessi brunnur er botnlaus.
Atriði sem lúta að fortíð og nútíð geta flækst fyrir mörgum börnum. Kenndu barninu hvað „í gær“ þýðir og í „fyrradag“ og svo framvegis. Spurðu barnið hvað það gerði í gær og hvað það hlakkar til að gera um helgina. Kenndu þeim einnig á dagatal, að þekkja mánuðina, vikudagana og hvenær jólin eru svo dæmi séu tekin.
Kenndu börnunum þínum að spyrja og spyrja þangað til þau fá fullnægjandi svör. Öðruvísi læra þau ekki, svo einfalt er það. Að sama skapi hvetur Spencer foreldrar til að svara öllu spurningaflóðinu, verðlaunaðu þau fyrir forvitnina og sýndu þeim þolinmæði.
Hér er ekki átt við að flokka og skila þó það sé göfugt að kenna börnunum það. Hér er átt við til dæmis dýrategundir; hvaða dýr borða gras og hvaða dýr borða kjöt? Hvaða tré fella lauf og hver ekki? Hvaða farartæki fljúga og hver ekki? Þó þetta hljómar einfalt kennir þetta barninu þínu grundvallaratriði rökhugsunar.
Púsl eru klassísk aðferð og raunar frábær aðferð til að kenna börnunum að temja sér rökhugsun. Ef þau verða þreytt á þeim, gangtu frá þeim og taktu upp þráðinn síðar.
Þetta getur verið af ýmsum toga. Farðu með barnið út að leika; í fótbolta, körfubolta eða á leikvöllinn. Börnin eiga að vera þreytt þegar kvölda tekur.
Börn þurfa, rétt eins og við, að tileinka sér heilbrigt mataræði. Mörg sækja í sælgæti, sem er býsna eðlilegt enda er það gott á bragðið. Leyfðu barninu að taka þátt í matargerðinni, til dæmis bakstri og eldamennsku.
Taktu þátt í leikjum barnsins og hvettu það til að vera gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Leyfðu barninu að semja reglurnar, þannig upplifir barnið að það sé við stjórnvölin. Að ýta undir sköpunarkraftinn getur hjálpað barninu á ýmsum sviðum þegar fram í sækir.
Öll börn hafa gott af því að mála og teikna, segir Spencer. Þau þjálfast á ýmsa vegu og þetta ýtir undir sköpunarkraft barnsins.
Hér er ekki átt við níundu sinfóníu Beethovens eða eitthvað álíka. Fjarri lagi. Hér er átt við að börn geti slegið taktinn á pottana eða pönnurnar í eldhúsinu. Þetta ýtir undir hreyfiþroska þeirra og kemur þeim að góðu gagni þegar út í lífið er komið.
Birtist fyrst í DV.