„Ég kynntist olíunni árið 2002, ég var búin að vera lengi í vatnslit og pastel áður. Ég tók að mér í fjöldamörg ár að mála andlitsmyndir í pastel eftir ljósmyndum, svo fékk ég leið á því, fór í vatnslitun og kynntist síðan olíunni, sem ég mála mest í.“
Karen er búin að fara á fjöldamörg námskeið í málun hjá Myndlistaskóla Kópavogs og fleiri listamönnum og er búin að vera í áhugahópi á vegum Reykjavíkurborgar síðan árið 2002, sem hittist einu sinni í viku og málar saman.
Karen heldur nú fjórðu einkasýningu sína og annað árið í röð er hún í Energia í Smáralind, áður hefur hún haldið sýningar í Domus Medica og í Kaffi Álafoss í Álafosskvosinni.
„Ég er búin að mála og selja gríðarlega mikið í gegnum árin,“ segir Karen, sem vill að sem flestir eigi kost á að eignast listaverk. „Ég hef alltaf reynt að vera sanngjörn, af því að ég vil frekar mála rosalega mikið og selja rosalega mikið.“
„Í þetta sinn er ég að fókusera mikið á grjótamyndir, hafið, fjöllin og himininn. Ekki eins og ljósmynd, heldur svona abstrakt. Það sem ég er að gera núna heillar fólk og ég hef fengið góðar viðtökur við myndunum,“ segir Karen.
Opnunarpartý sýningarinnar er á morgun og allir eru velkomnir, sjá viðburð á Facebook hér.
Karen tekur einnig að sér að mála myndir eftir sérpöntunum og núna er á mynd í vinnslu á trönunum fyrir kunningja hennar, sem sýnir úfinn sjó, skip og vita sem lýsir því leið í örugga höfn. „Ég hef verið beðin um að mála ákveðna bóndabæi, ákveðin fjöll, ákveðið landslag, bara svo dæmi sé tekið.“
Karen hefur málað frá því hún var barn, en langaði upphaflega ekki að gera listina að ævistarfi. Hún er hárgreiðslumeistari og tattúsérfræðingur og vinnur aðeins við það, en dreymir um að geta lifað eingöngu af listinni.
„Ég er bara sköpuð með þessum ósköpum og hef brennandi ástríðu til að vera alltaf að skapa og ef ég er ekki að skapa þá er ég bara leiðinleg. Þegar ég var 15 ára í gaggó, þá kallaði myndmenntakennarinn minn mömmu á fund og sagði: Þessi stelpa þarf að fara í myndlistaskóla,“ en ég sagði nei og vildi fara í hárgreiðslu. En svo sé ég það í seinni tíð að kennarinn hafði alveg rétt fyrir sér.“
Fyrir utan að mála með áhugamannahópnum, þá málar Karen heima, „Hér hef ég nóg pláss og birtuna,“ en Karen býr við Elliðavatnið með stórfenglegt útsýni.