Listakonan Margrét Ósk Hildur Hallgrímsdóttir, eða Magga eins og hún er oftast kölluð, er sjálfmenntuð í myndlistinni og hefur haft nóg að gera í fjölbreyttum verkefnum. Hún leggur stund á nám í grafískri hönnun og er búin með fyrsta árið. Magga skapar þó ekki bara listaverk í myndlistinni, því frumburðurinn er líka á leiðinni í heiminn, en Magga á von á sér 31. desember.
„Mamma segir að ég hafi byrjað að teikna um leið og ég gat haldið á blýanti,“ segir Magga sem segir innblásturinn koma alls staðar að. Hún teiknar mest með penna eða blýanti, en málar einnig akrýlmyndir og veggmyndir. „Flestar hugmyndirnar fæ ég á kvöldin og nóttunni.“
Þegar Magga var í tíunda bekk fór hún á Íslensku auglýsingastofuna í starfsnám og vissi þá að hana langaði að vinna við grafíska hönnun í framtíðinni. „Mér fannst praktískara að velja hana en myndlistina þó að mig langi einnig að vinna við það.“
Listaverkin prýða hótel jafnt sem heimili
Magga hefur málað myndir á veggi hótela og veitingastaða bæði í Reykjavík og á Siglufirði. „Fyrir tveimur og hálfu ári síðan fékk Helgi Tómas Sigurðsson, vinur minn og eigandi Frederiksen Ale House í Austurstræti, mig til að hanna og mála „lógó“ staðarins auk Íslandskorts og stórrar myndar sem eru á veggjum staðarins,“ segir Magga. Verkið vakti athygli og fleiri boð um að mála komu koll af kolli. Magga málaði Íslandskort á veggi veitingastaðarins Scandinavian sem er á Laugavegi, íslensku landvættina í eigin útfærslu í „renaissance“-stíl, landakort og íslenskt landslag á Residence hótelinu á Siglufirði og síðast miðbæjarkort í Kvosin hótel í Kirkjustræti.
En Magga málar ekki bara beint á hótelveggi, myndir hennar prýða líka fjölmörg íslensk heimili og eins og sjá má á síðu hennar á Facebook, þá eru þær af ýmsum toga. Magga hefur gert tvær seríur: Stjörnumerkjaseríuna og Tvímyndaseríuna. Þá fyrri prýða eins og nafnið gefur til kynna, 12 myndir af stjörnumerkjunum og í þeirri seinni eru komnar sjö myndir.
„Innblásturinn að tvímynda seríunni er íslenskt landslag og lífríki,“ segir Magga, sem vinnur seríuna í Photoshop.
Magga er með síðu á Facebook þar sem skoða má myndirnar hennar og panta.