fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

Hressleikarnir – 3,5 milljónir söfnuðust fyrir Steinvöru og dætur

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 30. nóvember 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinvör Þorleifsdóttir og dætur hennar tvær, Kristín Jóna og Þórhildur.

Linda Björk Hilmarsdóttir rekur heilsuræktarstöðina Hress í Hafnarfirði og hefur gert í tuttugu og fimm ár. Einn hápunktur í starfsemi Hress eru Hressleikar, sem haldnir eru fyrstu helgina í nóvember og voru haldnir í ár í tíunda sinn. Markmiðið með þeim er að safna fé handa fjölskyldu í Hafnarfirði sem gengur í gegnum erfiðleika.

Starfsfólk Hress.

Í ár var safnað fyrir Steinvöru Þorleifsdóttur og dætur hennar tvær, Kristínu Jónu og Þórhildi. Eiginmaður hennar, Kristjón Jónsson, lést úr sjaldgæfu krabbameini í fyrra og hún sjálf greindist með ólæknandi krabbamein fyrr á þessu ári. Steinvör var í viðtali í Morgunblaðinu helgina sem Hressleikarnir fóru fram.

„Kveikjan að Hressleikunum var sú að okkur langaði til að gera eitthvað jákvætt og skemmtilegt þegar nýbúið var að blessa Ísland. Allir voru svo daprir og leiðir og í raun í sjokki, bæði viðskiptavinir og starfsfólk Hress, sem ákvað að tala ekki um kreppuna að fyrra bragði. Okkur langaði jafnframt að takast á við einhverja áskorun og í kjölfarið voru fyrstu Hressleikarnir haldnir. Þeir tókust svo vel að árið eftir var ákveðið að endurtaka leikinn og safna um leið peningum fyrir fjölskyldu í okkar heimabæ, Hafnarfirði,“ sagði Linda Björk í viðtali við Vísir fyrr í nóvember.

Þeim sem taka þátt í Hressleikunum er skipt í átta lið, sem hvert klæðist sínum lit. Síðan er stöðvaþjálfun og hver og einn tekur þátt á sínum forsendum til styrktar góðu málefni.

Söfnunarféð er komið til Steinvarar og birti Hress í dag þakkarbréf frá henni á Facebooksíðu sinni:

Þegar Linda, kona sem ég hafði aldrei hitt og þekkti ekki neitt, hringdi í mig og sagði mér frá Hressleikunum sem árlega styrkja eina hafnfirska fjölskyldu og að núna vildu þau styrkja mig og dæturnar, var ég virkilega slegin út af laginu. Kristjón, maðurinn minn sem lést úr krabbameini sumarið 2016, hafði ekki skrifað mikið um sín veikindi á samfélagsmiðla og ég ekki heldur eftir að ég fékk greiningu sumarið 2017. Fáir vissu af mínum veikindum og ég var ennþá að átta mig á því höggi. Ég vissi að okkar saga færi í fjölmiðla og á samfélagsmiðla og við fengjum mikla athygli á nokkrum vikum, og það var ekki auðveld tilhugsun. En ég ákvað að láta slag standa. Linda náði að sannfæra mig og peppa mig upp en hún er líka alveg einstök manneskja. Elsku Linda, þú ert það. Ég vissi að þessi styrkur myndi þýða mjög mikið fyrir mig og dæturnar. Ég sé svo sannarlega ekki eftir að hafa tekið þátt, því ég hef verið umvafin ást og kærleika síðan Hress tilkynnti um styrktarfjölskylduna fyrir leikana 2017.

Það var stórkostlegt að koma í Hress þegar leikarnir voru í gangi og sjá allt fólkið að púla og það á laugardagsmorgni til að styðja við bakið á okkur! Ég var svo glöð og hrærð og allt þar á milli, þetta var alveg ótrúleg upplifun. Þarna voru vinnufélagar, ættingjar, vinir og síðast en ekki síst allt fólkið sem að þekkti okkur ekkert en vill styðja ókunnungt fólk úr firðinum sínum. Þetta verður stund sem við mæðgurnar munum aldrei gleyma. Hress er greinilega alveg sérstök líkamsræktarstöð sem að lætur sig bæinn sinn og fólkið í honum varða. Hafnarfjörður er svo sannarlega heppinn að hafa þetta fyrirtæki í bænum.
Við erum tíunda fjölskyldan sem fær veglegan styrk í veikindum í gegnum þeirra framtak.

Við mæðgurnar viljum þakka öllum sem að tóku þátt, Lindu og Nonna í Hress, þeim sem bentu á okkur (og ég veit ekki ennþá hver það var!), starfsfólki Hress fyrir að gefa vinnuna sína fyrir verkefnið, Heklu sem að sá um að safna gjöfum og vinningum, ættingjum okkar Kristjóns, vinum, skólafélögum, vinnufélögum, kennurum stelpnanna, Ljósinu og öllum þeim ókunnugu sem tóku þátt í leikunum, lögðu inn á styrktarreikninginn eða keyptu happdrættismiða. Einnig öllum fyrirtækjunum sem að gáfu okkur rausnarlegar gjafir og gáfu happdrættismiða.
Við mæðgurnar opnuðum gjafirnar hérna heima og þetta var eins og á jólunum! Við erum enn að skoða vinningana og njóta þeirra og munum gera næstu mánuði 🙂

Svo er gaman að geta sagt frá því að fyrir stuttu fór ég í fyrstu myndatökuna eftir að hafa tekið krabbameinslyfin í þrjá mánuði. Og vitið þið hvað! Krabbameinið hafði minnkað aðeins og sumt staðið í stað! Allavega virðast lyfin vera að virka og það er alveg stórkostlegt. Ég er viss um að svona mikill kærleikur eins og ég hef fundið fyrir í gegnum allt Hress dæmið hefur hjálpað til!
Styrkurinn gerir mér kleift að vera lengur heima en ég ætlaði. Stefnan er að vera dugleg að byggja mig upp og hugsa vel um dæturnar. Nú er ég þrisvar í viku á Reykjalundi og seinasti dagurinn þar er 8. desember og svo ætla ég að auðvitað mæta í Hress en ég var svo heppin að fá árskort frá þeim!
Ég hlakka svo til að geta sinnt okkur mæðgunum almennilega og það er allt ykkur að þakka sem að tóku þátt.

Ég á ekki nógu stór orð til að þakka fyrir okkur, elsku þið öll yndislega fólk.
Ég verð alltaf hamingjusöm, þakklát og hrærð yfir þessu.
TAKK KÆRLEGA FYRIR OKKUR ÖLL SEM EITT.
Bestu kveðjur og munið að lífið er núna!
Steinvör, Kristín Jóna og Þórhildur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs

Breiðablik staðfestir komu Valgeirs
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2