Ég á þrjú börn sem öll eru komin í grunnskóla, sem er auðvitað bara gott og blessað. Skólakerfið á íslandi er yfir höfuð mjög gott og sem betur fer búum við að því að hafa þetta flotta skólakerfi og alla þessa frábæru kennara sem halda utan um starfið og styðja og fræða börnin okkar ásamt því að hugga þau og gleðjast með þeim í gleði og sorgum.
Engin börn eru eins
Og engir tveir einstaklingar hafa sömu þarfirnar og engir tveir einstaklingarnir eru sömu námsmennirnir. Við erum jú, öll eins misjöfn og við erum mörg.
Sem betur fer hentar skólakerfið okkar flestum börnum.
En í þessum pósti langar mig til að minnast á þau börn sem ekki eru þessi „skólavænu börn“ ef svo má að orði komast.
Svo eitthvað sé nefnt.
Þetta eru börnin okkar sem eru jafnvel, þó ekki alltaf, með einhverjar greiningar eins og t.d. lesblindu, talnablindu, Adhd, Add og fleiri greiningar og raskanir. Hjá sumum börnum liggur þeirra geta bara frekar í líkamlegum þroska, eins og t.d. í íþróttum og önnur börn hafa sterkari tilfinningagreind.
Þetta eru að öllum líkindum börnin okkar sem verða „dugnaðarforkarnir“ í líkamlegri vinnu.
Þetta eru að öllum líkindum húsasmíðameistararnir okkar, sem byggja húsin fyrir okkur, rafvirkjarnir sem leggja rafmagn fyrir húsin okkar og allar virkjanirnar okkar, járnsmiðirnir sem smíða fyrir okkur handriðin á nýbyggingarnar okkar, bifvélavirkjarnir sem gera við bílana okkar.
Þetta eru listamennirnir, tónlistarfólkið okkar, hugmyndasmiðirnir og svo má lengi telja.
Því miður eru þetta börnin sem eru oft á tíðum skólakerfinu okkar „erfið“ ef svo má að orði komast. Þessi börn storka vissulega kerfinu, en einhverjir verða að taka það að sér, er það ekki?
En sem betur fer, eins og ég sagði, þá er skólakerfið okkar hér á Íslandi frábært og við eigum ótrúlega flotta, færa og vel menntaða kennara og sem betur fer er yfirleitt, ef ekki alltaf, hægt að aðstoða þessi börn við námið. Það eru sem betur fer til allskonar lausnir og úrræði fyrir þau. Að vísu finnst mér oft á tíðum seint gripið inn í (eða það er allavega mín reynsla, og margra annarra sem ég hef rætt þessi mál við) og oft mætti grípa mun fyrr í taumana.
En svo skal líka hafa það í huga að þau börn sem ekki ná tökum á lestrinum fyrst af öllum, eða þau börn sem ekki ná að læra margföldunartöfluna eða deilingu á fyrstu árum skólagöngunnar, verða oft á tíðum mjög sterkir nemendur þegar fram líða stundir.
En það sem mér finnst mikilvægast er að setja ekki öll börn undir sama hattinn, og að veita því skilning að það er bara alls ekki sjálfsagt að öll börn séu orðin læs í 2. bekk eða kunni margföldunartöflurnar.
En það sem við megum hafa í huga, ávalt, er að DÆMA EKKI.
Það á enginn rétt á því að setja út á það að barnið þitt kunni ekki á klukku eða að barnið þitt lesi ekki nógu hratt, o.s.frv. en margir foreldrar sem eiga börn sem eru í þessari stöðu hafa einmitt oft mætt fordómum og skilningsleysi hjá fólki og öðrum foreldrum. Við eigum engan rétt á því að dæma aðra og sérstaklega ekki ef við þekkjum ekki aðstæður og/eða sögu þessara barna. Berum virðingu fyrir hvort öðru og umfram allt, berum virðingu fyrir börnunum okkar (og annarra). Því að það eru einmitt þau sem móta framtíðina okkar. Og sem betur fer eru þau ekki öll eins.
Það reyna allir sitt besta, bæði foreldrar og börn, og það ber að virða.