„Ég er bara mjög sátt, það er alltaf jákvætt að skora mikið af mörkum og halda hreinu í þokkabót,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður íslenska landsliðsins eftir 8-0 sigur liðsins á Færeyjum í kvöld.
Það voru þær Elín Metta Jensen, Gunnhildur Yrsa Sigurðardóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem skoruðu mörk Íslands í leiknum.
„Ég veit ekki hversu mörgum færum við klúðruðum í þessum leik. Það var sláin, stöngin og rétt framhjá þannig að það hefði verið ljúft að sjá kannski 10-0 en 8-0 er líka flott. Vinstri kanturinn var gal opinn og við Fanndís náum vel saman þannig að þetta var skemmtilegt í kvöld.“
„Það getur verið erfitt að halda haus en það var skemmtilegt að spila í kvöld fannst mér. Það var mikið af fólki á vellinum. Mér líður alltaf vel í vinstri bakverðinum og í dag erum við komnar með góða reynslu af nokkrum kerfum og það er bara af hinu góða held ég.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.