Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, hefur aldrei orðið vitni að öðru eins og leik liðsins gegn Víkingi Reykjavík í kvöld. FH var 2-0 undir en sneri taflinu við og vann 4-2 sigur að lokum.
,,Ég hef ekki hugmynd um hvað gerðist. Ég hef aldrei orðið vitni að svona áður. Við byrjuðum leikinn skelfilega og staðan hefði getað verið 3 eða 4-0 eftir hálftíma,“ sagði Heimir.
,,Við sýndum góðan karakter og eftir að Davíð skoraði markið eftir hornspyrnu þá hrökk þetta heldur betur í gang og við settum þá undir pressu.“
,,Eftir hálftíma þá var ég að velta því fyrir mér að breyta í hálfleik eða þetta hefði getað farið illa.“
,,Mér finnst það mjög ólíklegt að Valur hendi þessu frá sér,“ bætti Heimir við um topplið Vals.