„Þetta er bara mjög svekkjandi,“ sagði Kristján Ómar Björnsson, spilandi þjálfari Álftanes eftir 3-0 tap liðsins gegn Augnablik í kvöld.
Það voru þeir Kári Ársælsson, Hjörvar Hermannsson og Hjörtur Júlíus Hjartarsson sem skoruðu mörk Augnabliks í leiknum en fyrri leik liðanna lauk með 2-2 jafntefli og Augnablik fer því upp í 3. deildina, samanlegt 5-2.
„Innst inni höfðu menn ekki trú á þessu, það er einfaldlega þannig. Ég held að ég hafi ekki verið svona spenntur fyrir leik síðan að ég var tuttugu og þriggja ára gamall. Við vorum bara númeri of litlir í dag, það er bara þannig.“
„Menn voru orðnir örþreyttir og þessi hraðskák í lokin var farin að taka aðeins á okkur enda spilað þétt síðustu dagana. Augnablik var með hausinn í þetta og ég óska þeim bara innilega til hamingju með þetta.“