Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var ekki nógu ánægður með spilamennsku sinna manna í kvöld í 1-1 jafntefli gegn Víkingi Ólafsvík.
,,Ég er frekar fúll með þetta. Við höfum spilað nokkra leiki í röð sem eru ekki nógu góðir. Það vantar tempó í liðið, gamla Fjölnisliðið sem er alltaf með tempó,“ sagði Ágúst.
,,Það er þannig að þegar við erum komnir í teiginn þá eru menn að vesenast með boltann og of mikið af snertingum og við náum ekki að klára.“
,,Við æfum mikið með tvær snertingar á boltann og láta ganga á milli og sækja hratt. Það hefur verið okkar leikstíll en við erum að klappa honum of mikið.“