„Úrslitin eru svekkjandi en ég horfi á það sem við gerðum í leiknum og frammistöðuna,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvenna landsliðsins eftir 1-0 tap gegn Brasilíu í kvöld.
Það var Marta, sóknarmaður Brasilíu sem skoraði eina mark leiksins í síðari hálfleik og lokatölur því 1-0.
Þetta var síðasti leikur íslenska liðsins fyrir EM í Hollandi sem hefst þann 16. júlí næstkomandi.
„Við getum alveg leyft okkur að hafa áhyggjur af því að við séum ekki að skora en samt ekki, ég myndi hafa áhyggjur ef við værum ekki að skapa okkur færi. Við eigum samt sem áður ekki að sætta okkur við það og ég er auðvitað ósáttur við það.“
„Planið var að fara hátt á þær og vera með smá rokk og ról í þessu og það gekk vel. Það kom mér á óvart hvað við vorum mikið með boltann og þær náðu ekkert að halda í hann þarna í fyrri hálfleik.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.