„Kannski fyrir nokkrum árum þá hefðu við tapað þessum leik þannig að það er hrikalega sætt að taka hérna þrjú stig,“ sagði Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals eftir 2-1 sigur liðsins gegn KR í kvöld.
Það var Guðjón Pétur Lýðsson sem kom Val yfir áður en Sigurður Egill Lárusson tvöfaldaði forystu heimamanna undir lok fyrri hálfleiks. Tobias Thomsen minnkaði muninn fyrir gestina undir lok leiksins en lengra komust þeir ekki og lokatölur því 2-1 fyrir Valsara.
„Í fyrri hálfleik voru Óskar og Kennie að skapa smá usla en ef það er eitthvað sem við kunnum þá er það að berjast og gefa allt í þetta og ef þú gerir það ekki á móti KR þá færðu ekkert út úr leiknum.“
„Við ætluðum okkur að reyna spila boltanum og það tókst ágætlega og við fengum nokkur dauðafæri í fyrri hálfleik en eins og ég segi þá eru það þessi þrjú stig sem við tökum með okkur.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.