Hörður Björgvin Magnússon, Jón Daði Böðvarsson og Kolbeinn Sigþórsson verða ekki með íslenska landsliðinu gegn Perú á morgun en það er fótbolti.net sem greinir frá þessu.
Landsliðið er nú statt í New York þar sem liðið undirbýr sig fyrir leikinn gegn Perú en liðið tapaði 0-3 fyrir Mexíkó á föstudaginn síðasta.
Liðið æfði í dag á æfingasvæði New York Red Bulls og gátu þeir Hörður Björgvin, Jón Daði og Kolbeinn ekki tekið þátt í henni.
Þeir Jón Daði og Kolbeinn hafa báðir yfirgefið Bandaríkin og eru nú á leið til félagsliða sinna.
Þá hafa þeir Aron Einar Gunnarsson, Albert Guðmundsson og Samúel Kári Friðjónsson einnig yfirgefið hópinn en þeir tveir síðarnefndu eiga mikilvægan leik með U21 árs landsliði Íslands.