„Mér hefur líkað dvölin á nýjum stað afar vel, ég held að flestir leikmenn séu ánægðir þegar þeir spila og njóta trausts frá þjálfaranum,“ sagði Rúrik Gíslason, leikmaður Sandhausen í Þýskalandi og íslenska landsliðsins í samtali við 433.is. Rúrik skipti yfir til Sandhausen í næstefstu deild Þýskalands frá Nürnberg þar sem hann hafði verið síðustu ár.
Þessi þrítugi leikmaður upplifði oft erfiða tíma í Nürnberg, þjálfarinn þoldi ekki að Rúrik væri valinn í íslenska landsliðið og setti hann iðulega út í kuldann eftir verkefni með landsliðinu. Rúrik náði því aldrei fótfestu hjá félaginu og fór til Sandhausen þar sem hann hefur blómstrað.
„Hér í Sandhausen er þetta mikið til byggt á svipuðum grunni og íslenska landsliðið. Það er sterkur varnarleikur og mikil vinnsla í liðinu, það er mikið hlaupið og allir leggjast á eitt. Taktískt finnst mér þetta mjög gott hérna, við töpuðum síðasta leik í deildinni sem var ekki alveg nógu gott en fram að því leit þetta allt virkilega vel út. Í síðustu tveimur leikjum hafa einstaklingsmistök reynst okkur afar dýr, ég ætla ekkert að skella skuldinni á einn eða tvo leikmenn en það er margt sem þarf að ganga upp í þessari deild. Það geta allir unnið alla, það eru átta leikir eftir og við erum fimm stigum frá umspili. Það getur allt gerst í fótbolta.“
Gerir allt auðveldara að njóta trausts
Kenan Kocak, þjálfari Sandhausen, hefur sýnt Rúrik mikið traust og hefur fengið það til baka með góðri frammistöðu frá Kópavogsbúanum. „Það er allt annað að vera leikmaður þegar þú ert með fullt traust, það gerir allt auðveldara. Ég finn fyrir miklu trausti og vonandi hefur mér hingað til tekist að borga það til baka. Ég finn líka mikinn mun hjá Sandhausen, að hér er mikil virðing borin fyrir því að leikmaður sé í landsliðinu, í Nürnberg var það bara vesen fyrir mig að koma eftir landsleiki. Þá var ég iðulega settur út úr hópnum. Kocak þurfti ekki að eyða mörgum orðum til að sannfæra mig þegar hann hringdi og bauð mér að koma hingað, hann sagði mér að ef ég myndi standa mig þá væri ég hans maður og hingað til hefur það gengið upp. Vonandi verður áframhald á því.“
Næsti bakvörður landsliðsins?
Rúrik var fenginn til Sandhausen sem kantmaður eða sóknarmaður og þar byrjaði hann að spila, meiðsli urðu til þess að hann hefur síðan leikið talsvert sem hægri bakvörður. Þar hefur Rúrik fengið mikið lof fyrir spilamennsku sína og gæti hann nýst íslenska landsliðinu þar. „Ég kom hingað og átti að vera kantmaður og eða sóknarmaður, það meiðast svo tveir hægri bakverðir. Einn fótbrotnaði og hinn braut hauskúpuna, ég byrjaði á að spila sem hægri og vinstri vængbakvörður en síðan nokkra leiki sem hægri bakvörður í 4-4-2. Það hefur verið gaman að spila þá stöðu, mér líkar það mjög vel og ég er hægt og rólega að læra inn á þessa stöðu. Það hefur gengið vel og ég held áfram að læra inn á hana, þetta er spennandi staða og skemmtilegt að spila hana. Ég treysti mér vel til að spila hana með landsliðinu ef Heimir ákveður að ég eigi að spila þar. Oft, til að byrja með, getur verið örlítið stressandi að spila nýja stöðu en eftir nokkra leiki þarna þá líður mér vel og hef sjálfstraust í henni, ég hef gaman af því vera bakvörður.“
Vilja framlengja samning
Rúrik samdi við Sandhausen til sumars en félagið vill gera við hann langan samning. „Ég átti samtal við þjálfarann og stjórnina um daginn og þeir vilja gera við mig langan samning. Það eru búnar að vera miklar sögusagnir um að þjálfarinn sé að fara í sumar og hann er orðaður við Hoffenheim, Stuttgart og fleiri klúbba. Ég vil ekki skrifa undir neitt nema framtíð hans sé á hreinu, ég sagði þjálfaranum það. Það er fullur skilningur á því og við tökum aftur upp þráðinn þegar allt er á hreinu.“
Spenntur fyrir komandi verkefni
Landsliðið heldur til Bandaríkjanna í næstu viku þar sem liðið leikur æfingarleiki við Mexíkó og Perú en um er að ræða síðustu leikina áður en lokahópurinn fyrir HM verður valinn. „Þetta leggst vel í mig, þetta eru tveir mjög spennandi leikir og það er bara gamla góða klisjan, það er alltaf geggjað að vera í landsliðinu. Ég held að það sjáist alltaf á leik liðsins að það vilja allir vera með og það leggja sig allir alltaf 100 prósent fram. Þetta eru öðruvísi andstæðingar, en við erum vanir að spila vel og þeir eru því mikilvægari en oft áður. Ég held að það sé mikilvægt að maður spili sinn leik og sé ekki að hugsa of mikið eða fara fram úr sér þegar maður er valinn.“
Missti af EM
Rúrik var einn af þeim sem þurftu að bíta í það súra epli að missa af sæti í hópnum sem fór á EM í Frakklandi. „Ég held að ég hafi ekki veikt stöðu mína með því að fara til Sandhausen og spila í hverri viku, það vilja allir fara á þetta stórmót. Ég held að það breyti ekki neinu hvort menn hafi misst af EM eða ekki, það vilja allir alltaf vera með á HM. Það er mikil samkeppni, ég er að spila alla leiki núna og vonandi hjálpar það mér þegar hópurinn fyrir Rússland verður kynntur.“