fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024

Að hlæja óvinsæl yfirvöld í hel

Þér að segja

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 8. apríl 2016 15:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur löngum verið beittasta vopn almennings í löndum þar sem stjórnvöld eru óvinsæl en neita að hverfa frá kjötkötlunum að segja um þau neyðarlega brandara. Einn brandarinn sem gekk á meðal fólks sem þurfti að búa við hin illa þokkuðu stjórnvöld Austur-Evrópu á tímum Kalda stríðsins var einhvernveginn á þessa leið: Háskólastúdent í hagfræði í Austur-Berlín er beðinn um að lýsa efnahagsástandinu í Bandaríkjunum og hann svarar óhikað: „Bandaríkin færast óðfluga nær hyldýpi kreppunnar og innan fárra ára munu þau steypast ofan í logandi öngþveitið!“ Prófdómarar klappa, þetta er fullkomið svar, verðskuldar hæstu einkunn. Og næsta spurning snýst um að lýsa efnahagsástandinu í Sovétríkjunum, og það kemur líka hratt, hárrétt og óhikað: „Sovétríkin nálgast Bandaríkin óðfluga og munu innan fárra ára taka fram úr þeim!“

„Orður titlar úrelt þing …“

Þótt stjórnvöld séu fyrirlitin en þaulsætin, vanræki þegnana og sýni þeim grimmd á meðan valdastéttin baðar sig í munaði, þá lumar almenningur alltaf á þessu beitta vopni, það er að segja húmornum. Eins og sást meðal annars í nefndum kommúnistaríkjum í austanverðri Evrópu á sinni tíð. Húmorsleysi valdhafanna þar var auðvitað hlægilegt í sjálfu sér, og sumu þarf ekki einu sinni að gera grín að: til dæmis orðu- og nafnbótafarganinu sem þeir voru alltaf að hlaða hver á annan; pólitískir kommissarar sem aldrei höfðu komið á vígstöðvar, menn sem aldrei höfðu gert neitt hetjulegra en að njósna um og kúga samlanda sína, fengu miklu fleiri og hærri orður og nafnbætur fyrir hugrekki og hetjuskap en sannar stríðshetjur úr fremstu víglínu. Þessi andi lifir enn eins og menn vita í Norður-Kóreu, og margir hafa séð myndir af helstu ráðamönnum þar með orðurnar sínar og heiðursmerki sem ekki bara fylla jakkana bæði að framan og aftan heldur líka buxnaskálmarnar niður fyrir hné – þetta er eins og að horfa á trúða.

Falsson og frystikista kommúnismans

Sumt pólitískt grín er semsagt þannig að það semur sig sjálft, og varla neinu við það að bæta. Sá sem nú væri að semja stjórnmálarevíu á Íslandi gæti ekki samið neitt dramatískara og fyndnara en sænska sjónvarpsviðtalið frá liðnum sunnudegi. Hefði það aldrei átt sér stað heldur bara verið samið af til dæmis Spaugstofumönnum eða Fóstbræðrum, þá hefði eflaust heyrst sú krítík úr ýmsum áttum að nú hefðu höfundarnir skotið yfir markið; svona vitleysa myndi auðvitað aldrei gerast í alvörunni. Og sama á við það ef þeir hefðu látið braskfyrirtæki í skattaskjóli í eigu fjármálaráðherrans og félaga hans heita „Falsson“.

En við vorum að tala um Austur-Evrópu á tímum Kalda stríðsins og þannig samfélög – „frystikistu kommúnismans“ kallaði það einhver – og það grín sem almenningur gat búið sér til um þjóðfélagsmálin og valdhafana. Og reyndar lágu leiðtogar og valdastétt þeirra ríkja gjarnan meira en vel við höggi, með sinn hégómleika og megalómaníu. Og var það þeim mun furðulegra sem það blasti betur við að gjarnan voru þetta afar litlir kallar, smámenni til orðs og æðis en höfðu flotið upp í æðstu stöður og embætti, eins og taðkögglar í vatni. En reyndar fer það gjarnan svo í valdakerfi og pólitík þar sem persónueiginleikar eins og þeir sem kenndir eru við músina sem læðist reynast helst ávísun á frama; í einræðisflokkum og valdakerfi þar sem menn komast því hærra eftir því sem þeir eru falskari og lygnari, viljugri til að sýna tvískinnung, sýna hærra settum meiri hollustu, með tilheyrandi rassasleikjum, og eru jafnan tilbúnir til að selja ömmu sína í von um bitling. Mörgum eru í fersku minni síðustu dagar Sjáseskú-hjónanna í Rúmeníu, og hversu furðulegt var að sjá að því lítilsiglda fólki skyldi hafa tekist að trúa því að það væri ígildi þjóðfrelsara og sólkonunga í þessu fátæka landi með sinni kúguðu þjóð; þau höfðu meira að segja látið rífa niður alla hina gamalgrónu miðborg Búkarest til að byggja þar í staðinn yfir sig sjálf stærstu forsetahöll í heimi. Og svo við lítum á ný til Norður-Kóreu; bara útlitið og merkikertissvipurinn á því útblásna barni sem þar fer nú með einræðisvöld er þannig að Coen-bræður eða Monty Python myndu veigra sér við að hafa hann í skrípamynd – það væri eiginlega „overkill“.

Austur-Evrópu húmorinn

Einn Austur-Evrópubrandaranna var svona: Kennari spyr ungan nemanda hver sé munurinn á kapítalista og kommúnista. Barnið svarar: „Kapítalistinn elskar peninga en kommúnistinn elskar fólk.“ „Mjög gott!“ segir kennarinn. „Og hvernig birtist þetta?“ „Kapítalistinn læsir peningana sína niðri,“ segir nemandinn, „en kommúnistinn læsir …“ „Já, þetta er orðið gott,“ sagði þá kennarinn. Önnur sagan var svona: Þrír menn sátu í fangaklefa í DDR og ræddu um fyrir hvað þeir sætu inni. Einn sagði: „Ég kom fimm mínútum of seint til vinnu, og það þótti spilla fyrir.“ Annar sagði: „Ég kom alltaf fimm mínútum of snemma til vinnu, og þá var því slegið föstu að ég væri að njósna.“ Sá þriðji sagði: „Ég mætti alltaf á réttum tíma, svo þeir föttuðu að ég hefði náð mér í úr frá Vesturlöndum.“

Eitt sinn voru Erich Honecker og Mielke, æðsti lögregluforinginn í DDR, að ræða um áhugamál sín, eða hobbí. Honecker sagði: „Ég safna saman öllum bröndurum sem eru sagðir um mig.“ Þá sagði Mielke: „Mitt hobbí er í rauninni mjög svipað: „Ég safna saman öllum sem segja brandara um þig.“

Þannig gamansemi í þjóðsögum og bókmenntum

Húmor af þessu tagi, svona litlar gamansamar sögur þar sem valdhafar eru dregnir sundur og saman í háði, er reyndar náskyldur þjóðsögum og ævintýrum; einhverskonar varnarleikur hinna undirokuðu. Enda sjáum við í svo mörgum þjóðsögum, til dæmis nýrri snilldarútgáfu á Grimmsævintýrum endursögðum, sem kom út á íslensku fyrir síðustu jól, að hetjur þeirra sagna eru gjarnan hinir smæstu; kotungar, undirokaðir yngstu bræður, að ekki sé talað um sjálfa Öskubusku. Hinir „litlu“ í samfélögunum reynast í slíkum sögum gjarnan úrræðabestir og útsjónarsamastir, auk þess að hafa unnið sér inn góðvild dýra og ýmissa vætta með breytni sinni, á meðan hinir eldri eru stirðir og hugsa hægt og hafa áður sýnt öllum og öllu tillitsleysi og yfirgang. Eins og húsdýrin sem á að slá af vegna þess að þau eru orðin gagnslaus að áliti mannanna, en sem taka sig saman um að halda hópinn og stofna hljómsveit. Þetta er ein af mínum uppáhaldssögum í veröldinni, hét áður „Brimaborgarsöngvararnir“ en í hinni nýju endursögn Philips Pullman og þýðingu Silju Aðalsteins „Tónsnillingarnir frá Brimaborg“; þeir lenda í háska er þeir hitta hættulegan ræningjaflokk, en reynast honum miklu hugvitssamari. Úr bókmenntum liðinna alda þekkjum við margar slíkar sögur, og eru oftast kenndar við „píkaresku.“ Fræg bókmenntaverk hafa verið skrifuð dálítið í sama anda; ein vinsælasta skáldsaga liðinnar aldar er eins og allir vitar „Góði dátinn Svejk“ og þar er það mælska og hugvitssemi hinna óbreyttu sem oftast skilur foringja og hershöfðingja eftir sem berstrípaða trúða. Þegar bókin kom fyrst út var Habsborgaraveldið mikla reyndar liðið undir lok, en hefði svo ekki verið hefði hún án efa orðið því gamla keisaradæmi ærið skeinuhætt.

„Hvað myndi gerast ef einhver dræpi Walter Ulbricht?“

Walter Ulbricht var á undan Honecker leiðtogi Austur-Þýskalands eða DDR, þessa undarlega Stasi-samfélags þar sem líklega var betur fylgst með þegnunum en annars eru dæmi um í sögunni. Þar var svo nákvæmlega njósnað um borgarana að það þótti hreinlega vera kostur í tilfellum eins og ef menn þurftu að taka leigubíl; bílstjórinn vissi hver þú varst og hvar þú áttir heima.

Walter Ulbricht var að sjálfsögðu skreyttur mörgum orðum og heiðursmerkjum, meðal annars einni sem mikið var spaugað með, en hún var fyrir hetjuskap í Spænsku borgarastyrjöldinni. Hetjuskap sem ekki margir aðrir könnuðust við, og síst þeir sem sjálfir höfðu verið á vígstöðvunum á móti fasistaherjum Francos. Konan hans, Lotte Ulbricht, var líka höfði í háum sessi, og hún hagaði sér eins og drottning eða móðir allrar þjóðarinnar, þótt hún hefði síst orð á sér fyrir mannkosti; mildi, þokka eða skemmtilegheit. Ein alþýðusagan var svona: Tveir DDR-borgarar hittust á Alexanderplatz og tóku tal saman. Og annar segir við hinn: „Hugsaðu þér, í Bandaríkjunum skutu þeir forsetann! Hvað heldurðu að myndi gerast hér ef einhver kæmi og dræpi Walter Ulbricht?“ Hinn svaraði: „Ekki veit ég hvað myndi gerast þá. En ég er samt nokkuð viss um að skipakóngurinn Onassis myndi ekki giftast ekkjunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Dóra Björt lætur Sjálfstæðisflokkinn fá það óþvegið – Stolt að hafa haldið honum frá völdum í borginni

Dóra Björt lætur Sjálfstæðisflokkinn fá það óþvegið – Stolt að hafa haldið honum frá völdum í borginni
Kynning
Fyrir 3 klukkutímum

Boozt.com: Jólagjöf með týpuna í huga

Boozt.com: Jólagjöf með týpuna í huga
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Amorim gagnrýnir þennan þátt í leik Hojlund og segir að hann verði að bæta þetta

Amorim gagnrýnir þennan þátt í leik Hojlund og segir að hann verði að bæta þetta
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Fólk steinhissa að sjá hver sat með Ferguson á vellinum í gær

Fólk steinhissa að sjá hver sat með Ferguson á vellinum í gær
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Gunnar Smári hraunar yfir nýja kosningaspá: „Safnhaugur misskilnings, dellu og vondra vinnubragða”

Gunnar Smári hraunar yfir nýja kosningaspá: „Safnhaugur misskilnings, dellu og vondra vinnubragða”
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Fyrrum Grindvíkingurinn ráðleggur Amorim hvernig hann getur safnað pening á Old Trafford

Fyrrum Grindvíkingurinn ráðleggur Amorim hvernig hann getur safnað pening á Old Trafford
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Útlit Lindsay Lohan vekur upp spurningar – Hvað hefur hún látið gera við sig?

Útlit Lindsay Lohan vekur upp spurningar – Hvað hefur hún látið gera við sig?