Helgi Valur Daníelsson skrifaði í dag undir samning við Fylki. Fylkir er aftur komið í deild þeirra bestu.
Helgi hefur ekki spilað fótbolta síðan árið 2015 þegar hann lék með AGF í Danmörku.
Helgi sem er uppalinn Fylkismaður hefur átt farsælan feril sem leikmaður. Hann spilaði 68 leiki í meistaraflokki Fylkis áður en hann fór í atvinnumesku en þar spilaði hann yfir 300 leiki með liðum eins og Peterborough í Englandi, Öster, Elfsborg og AIK í Svíþjóð, Hansa Rostock í Þýskalandi, Beleneses í Portúgal og AGF í Danmörku en þar kláraðist samningur hans 2015. Helgi hefur spilað 38 leiki með yngri landsliðum og 33 leiki með A landsliði Íslands.
Helgi sem er fæddur árið 1981 spilaði síðast með AGF í atvinnumennsku en hefur búið í Portúgal síðustu ár. Nú er hann á heimleið til að spila með uppeldisfélaginu sínu.
,, Þetta eru frábærar fréttir fyrir Fylki. Helgi er frábær fótboltamaður, uppalinn hjá félaginu og hefur átt farsælan feril sem leikmaður. Það er gott að fá Helga til okkar aftur til að taka þátt í spennandi tímum sem eru framundan hjá Fylki,“ segir Þorvaldur Árnason formaður meistaraflokks ráðs karla hjá Fylki
,, Það er algjörlega frábært að það hafi komið upp sú staða að ég gæti fengið tækifæri til að koma heim í uppeldisklúbbinn minn. Mér finnst ég vera tilbúinn í að koma heim og taka slaginn í Pepsí deildinni. Ég hef haldið mér ágætlega við eftir að ég hætti að spila sem atvinnumaður og stefni á að vera kominn í topp form sem allra fyrst,“ segir Helgi Valur Daníelsson leikmaður Fylkis