Stjarnan hefur ráðið tvo nýja aðstoðarþjálfara sem munu takast á við komandi keppnistímabil með Rúnari Páli Sigmundssyni.
Annars vegar hefur Stjarnan ráðið Jón Þór Hauksson sem aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla til næstu tveggja ára. Jón Þór hefur víðtæka reynslu en hann kemur til Stjörnunnar frá ÍA þar sem hann var aðstoðarþjálfari og síðar aðalþjálfari mfl. kk. auk þess að gegna stöðu yfirþjálfara yngri flokka og afreksstarfs.
Meira:
Davíð Snorri hættir hjá Stjörnunni – Tekur við U17
Hins vegar hefur félagið gengið frá tveggja ára samningi við Veigar Pál Gunnarsson og mun hann einnig ganga til liðs við þjálfarateymi mfl. karla. Veigar er Stjörnumönnum góðkunnur en hann kom heim úr atvinnumennsku árið 2013 og lék lykilhlutverk í að koma félaginu á meðal þeirra bestu á Íslandi.
Veigar fór frá Stjörnunni fyrir ári síðan og gekk í raðir FH þar sem hann var í hálft ár áður en hann kláraði tímabilið með Víkingi.