Pep Guardiola, stjóri Manchester City segir að liðið geti ekki unnið fernuna í ár vegna þess að það sé ekki með nægilega sterkan leikmannahóp.
Guardiola er með dýrasta hópinn í ensku úrvalsdeildinni en þrátt fyrir það segir hann að peningaleysi komi í veg fyrir að hann geti styrkt hópinn ennþá meira.
Alexis Sanchez gekk í raðir Manchester United á dögunm en City var ekki tilbúið að borga honum 350.000 pund á viku líkt og United gerði.
„Við höfum aldrei borgað 100, 90 eða 80 milljónir fyrir einn leikmann. Við getum ekki keypt leikmenn eins og staðan er í dag samkvæmt forráðamönnum félagsins,“ sagði Guardiola.
„Við getum ekki borgað þessi hæstu laun eins og staðan er í dag, kannski einn daginn en ekki eins og þetta lítur út í dag. Auðvitað höfum við eytt háum fjárhæðum í leikmenn en ég þyrfti breiðari hóp til þess að vinna fernuna.“
„Við erum samt sem áður ekki eina liðið sem hefur eytt í leikmenn, þetta er eitthvað sem öll lið gera,“ sagði hann að lokum.