Miguel Delaney ritstjóri Independent skrifar áhugaverða grein í kvöld um félagaskipti Alexis Sanchez.
Manchester United hefur staðfest kaup sína á Sanchez en það var gert nú rétt í þessu. Sanchez skrifaði undir samning við United í dag en hann kemur frá Arsenal.
Sanchez mun klæðast treyju númer 7 hjá Manchester United. Hann kemur til United í skiptum fyrir Henrikh Mkhitaryan sem fer til Arsenal og gerir samning við félagið.
Sögur hafa verið á kreiki um að Sanchez verði lang launahæsti leikmaður deildarinnar, Independent segir það bull og vitleysu.
Sum blöð hafa sagt að Sanchez þéni 600 þúsund pund á viku og önnur 450 þúsund pund á viku.
Independent fullyrðir hins vegar að United borgi Sanchez ekki meira en það sem Paul Pogba og Zlatan Ibrahimovic þéna. Það er í kringum 300 þúsund pund á viku í föst laun.
United borgaði hins vegar upphæðir til umboðsmanns Sanchez og til hans fyrir að velja United, upphæðir sem önnur félög vildu ekki greiða.